Auka áherslu á verk-, tækni- og listgreinar

Frá undirritun samkomulagsins í gær: Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, …
Frá undirritun samkomulagsins í gær: Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Páll Magnússon ráðuneytisstjóri.

Aukin áhersla verður lögð á að allir grunnskólanemar fái kennslu í verk-, tækni- og listgreinum samkvæmt aðalnámskrá en misbrestur hefur verið á því í sumum skólum samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Aðgerðaáætlun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga var kynnt í gær en markmið hennar er að auka áhuga ungmenna á starfs- og tæknimenntun og þar með fjölga einstaklingum með slíka menntun á vinnumarkaði.

„Mikil eftirspurn eftir starfs- og tæknimenntuðu fólki hér á landi hefur valdið færnimisræmi á vinnumarkaði. Fyrir vikið er framleiðni á Íslandi undir meðaltali Norðurlandanna, að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD). Í nýlegri skýrslu bendir stofnunin á mikilvægi þess fyrir land og þjóð, að fleiri sæki sér starfs- og tæknimenntun enda verði þannig betur komið til móts við þarfir samfélagsins,“ segir í tilkynningu.

Breyta á lögum um háskóla, svo iðnmenntaðir njóti sömu réttinda og þeir sem lokið hafa stúdentsprófi, til að sækja um háskólanám.

Einfalda skipulag starfs- og tæknináms, svo að námið verði í auknum mæli á ábyrgð skóla frá innritun til útskriftar. Bæta aðgengi að starfs- og tækninámi á landsbyggðinni enda ræður námsframboð í heimabyggð miklu um námsval ungmenna að loknum grunnskóla og styrkja náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum, bæði til ungmenna og foreldra, svo ákvörðun um námsval byggi á ítarlegum og góðum upplýsingum um nám, tækifæri og starfsmöguleika.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir í fréttatilkynningu: „Dagurinn markar tímamót og það er táknrænt að ráðuneytið hafi verið fullt út úr dyrum á þessum fundi. Áhuginn á málaflokknum er gríðarlegur og með samstarfi allra þessara aðila eru miklir kraftar að losna úr læðingi. Þetta eru brýnar og metnaðarfullar aðgerðir og ég er þess fullviss að okkur mun takast ætlunarverkið.“

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir í fréttatilkynningu: „Ég fagna mjög þessu samstarfi og er sannfærð um að framtakið verði þjóðinni allri til gæfu. Það er afar mikilvægt að menntakerfið, námsframboð á hverjum tíma og viðhorf til ólíkra greina séu í takt við þarfir samfélagsins og okkur takist að kveikja áhuga barnanna okkar á sem fjölbreyttustu námi og starfi. Við hjá Samtökum íslenskra sveitarfélaga hlökkum til að leggja okkar af mörkum.“

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, segir í fréttatilkynningu: „Íslenskur iðnaður er uppspretta gífurlegra verðmæta í hagkerfinu, sem aðeins verða til þar sem færni og þekking er til staðar. Samstarf eins og þetta er því ómetanlegt, þar sem margir taka höndum saman til að fjölga starfs- og tæknimenntuðu fólki á vinnumarkaði. Menntakerfið á að styðja við hugvit og nýsköpun, bæði með því að hvetja ungmenni til náms og bjóða þeim starfsmenntunarúrræði sem eru fyrir starfandi í atvinnulífinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert