Börn og ungt fólk komist best frá veirunni

Engin alvarlegtilfelli kórónuveiru hjá börnum hafa verið tilkynnt.
Engin alvarlegtilfelli kórónuveiru hjá börnum hafa verið tilkynnt. AFP

Þeir sem greinast með kórónuveiruna COVID-19 geta verið allt að því einkennalausir, en þeir sem veikjast hvað verst fá alvarlega lungnabólgu og þurfa að leggjast á gjörgæslu og geta veikindin endað með andláti.

Veiran leggst þó nær eingöngu alvarlega á fólk yfir fimmtugt og þeir sem eru veikir fyrir eða með undirliggjandi sjúkdóma eiga á mestri hættu að veikjast alvarlega.

Þetta segir Ólafur Guðlaugsson, yfirlæknir sýkingavarnadeildar Landspítala, í samtali við mbl.is. „Sjúkdómsmyndin er mjög breytileg. Hún spannar það að vera því sem næst einkennalaus, upp í það að vera alvarlega veikur, þá með lungnabólgu af völdum veirusjúkdóms.“

Engin alvarleg veikindi hjá börnum tilkynnt 

„Bilið er mjög breitt og yngstu einstaklingarnir virðast komast best frá þessu. Það hafa ekki verið neinar tilkynningar um alvarleg veikindi hjá börnum, og ef maður horfir á tölfræðina þá er það ekki fyrr en upp úr fimmtugu sem alvarleg veikindi og dánartíðni fara vaxandi. Því eldra sem fólk er og því fleiri undirliggjandi sjúkdóma það er með, því verri getur útkoman orðið,“ útskýrir Ólafur.

Ólafur segir ólíklegt að það takist að þróa lyf eða bóluefni gegn kórónuveirunni á næstu mánuðum. Það þýði þó ekki að veirusjúkdómurinn geti ekki dáið út. „Veiran lifir ekki endalaust í umhverfinu heldur byggir hún á því að magnast upp með hverju nýju smiti og með þessum ráðstöfunum sem verið er að grípa til með því að setja einstaklinga í sóttkví er verið að rjúfa þessa dreifingarkeðju. Þeir sem hafa smitast byrja að mynda mótefni, ná sér af veirunni og hætta að smita. Þannig rofnað keðjan á endanum og þetta er það sem við sáum gerast með SARS og aðra sjúkdóma.“

Enn á fleygiferð

Erfitt sé þó að segja til um hve langan tíma slíkt ferli geti tekið, enda fari það alfarið eftir því hversu vel takist að ná stjórn á útbreiðslu veirunnar. Það sé þó alltaf spurning um vikur eða mánuði.

„Þetta er mál sem er á fleygiferð, það eru stöðugt að bætast við upplýsingar og við erum stöðugt að endurskoða stöðuna. Það er þess vegna sem þessir samráðsfundir eru á hverjum degi og það er þess vegna sem við erum stöðugt að reyna að uppfæra upplýsingar, túlkun og vinnubrögð þannig að við séum að skila sem mestum árangri með sem minnstu samfélagslegu raski. Það er þetta sem það gengur út á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert