Raggi Bjarna - Skemmti þjóðinni í 70 ár

Raggi Bjarna var eilífðartöffari sem hélt söngröddinni alla tíð.
Raggi Bjarna var eilífðartöffari sem hélt söngröddinni alla tíð. mbl.is/Styrmir Kári

Það er óhætt að segja að stórsöngvarinn, eilífðartöffarinn og sprelligosinn Ragnar Bjarnason hafi verið orðinn hálfgerð þjóðareign eftir 70 ára tónlistarferil á sviði. Hver kynslóðin á fætur annarri hefur tekið ástfóstri við hann og eflaust má finna mörg dæmi þess að minnsta kosti þrjár kynslóðir hafi sameinast á tónleikum hans og uppákomum þar sem hann kom fram á síðari árum.

Þrátt fyrir að hann hafi verið þekktastur fyrir sönginn þá hóf hann ferilinn sem trommari, barnungur, meðal annars með hljómsveit föður síns, Bjarna Einars Böðvarssonar. Ragga var nefnilega tónlistin og söngurinn í blóð borinn, en móðir hans, Lára Ingibjörg Magnúsdóttir var ein fyrsta dægurlagasöngkona þjóðarinnar og söng með kórum í 40 ár.

16 ára steig hann fyrst á svið sem söngvari með Sigurði Ólafssyni og hljómsveit föður síns og þá var ekki aftur snúið. Hann átti reyndar alla tíð erfitt með að muna texta og skáldaði stundum í eyðurnar eða hummaði sig áfram, en það kom aldrei að sök. Sjálfur gerði Raggi mikið grín að þessum galla sínum, sem hefði eflaust háð einhverjum söngvaranum. En ekki Ragga. Hann fékk bara salinn til að syngja með sér ef hann lenti í vandræðum, enda kunnu allir lögin og tóku vel undir.

Raggi var spurður að því í viðtali árið 1996 hvaða lag stæði hjarta hans næst. Þá sagðist hann auðvitað hafa sungið mikið af lögum sem hentuðu markaðnum og voru líkleg til vinsælda, eins og Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig. Honum taldist það til að árið 1996 hefði hann sungið það að minnsta kosti 6.000 þúsund sinnum. Í öðru viðtali sama ár sagðist hann reyndar hafa sungið lagið allavega 8.000 sinnum. Það má þá leiða að því líkum að lagið hafi hann sungið hátt í 100 þúsund sinnum áður en yfir lauk.Sjálfur naut hann þess þó mest að syngja ballöður og þegar hann var spurður að því fyrir 85 ára afmælistónleikana í september síðastliðnum þá sagði hann lagið My Way vera sérstakt. Og ástæðan: „vegna þess að það reynir á og sker úr um hvort menn kunna að syngja eða ekki.“ En það kunni Raggi svo sannarlega.

En þó ballöðurnar hafi heillað þá hafði Raggi líka gaman af gríni og glensi. Hann kom á fót hópnum Sumargleðinni ásamt Ómari Ragnarssyni, sem ferðaðist um landið á sumrin í 16 ár og skemmti landanum og söng og glensi. Fyrir utan Ragga og Ómar voru í hópnum Bessi Bjarnason, Karl Guðmundsson, Magnús Ólafsson, Þuríður Sig­urðardótt­ir og Sigrún Hjálm­týs­dótt­ir, Halli og Laddi, Her­mann Gunn­ars­son og Þor­geir Ástvalds­son.

Hópurinn sem stóð saman að Sumargleðinni var í viðtali hjá sjónvarpskonunni Eddu Andrésdóttur árið 1990 og þar kom fram að Raggi hefði eiginlega stjórnað þessum villta tryllta hópi. Edda spurði Hemma Gunn að því hvernig Ragga hefði tekist það. „Það er enginn eins og Raggi, þetta er fyrirbrigði sem kemur kannski fyrir einu sinni á öld. Við vorum frá tíu og upp í sautján og hann þurfti ekkert að hafa fyrir því að fá fólk til að vinna fyrir sig og með sér. Hann gerði þetta allt á ljúfmennskunni.“

Þá var Raggi spurður að því af hverju sumargleðin hefði verið svona vinsæl. „Það var bara af því ég var alltaf með toppfólk. Það er einfalt svar við því.“ Þá viðurkenndu þeir að eflaust hefði enginn skemmt sér betur en hópurinn sjálfur. „Það var einhver sem sagði einhvern tíma að það væri bara andskotann ekkert gert á þessum æfingum nema hlæja og láta eins og ég veit ekki hvað,“ sagði Raggi hlæjandi.

Í viðtalinu árið 1996, þá 62 ára, var Raggi líka spurður hvort hann ætlaði ekkert að fara að hægja á sér. „Nei, nei ég ætla ekkert að hægja á mér. Ertu alveg frá þér maður,“ sagði hann hlæjandi. Hann sagðist einu sinni hafa ætlað að hætta og söng þá ekki í hálfan mánuð, en það entist ekki lengur. „Ég syng bara á meðan ég get,“ bætti hann við. Og það er óhætt að segja að Raggi hafi staðið við það. Hann söng opinberlega nánast fram á síðasta dag og hélt söngröddinni allan tímann. Í september síðastliðnum hélt hann 85 ára afmælistónleika á Eldborgarsal Hörpu þar sem hann söng fyrir fullum sal ásamt einvala liði tónlistarfólks. Um var að ræða síðari tónleika af tvennum, en þeir fyrri höfðu verið haldnir í apríl sama ár.Raggi glímdi við veikindi um sumarið 2019 og margir héldu að það yrði ekkert af seinni tónleikunum. Hann vildi hins vegar klára þetta verkefni með stæl og þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum fyrir tónleikana í september sagði hann: „Blessaður vertu, ég mæti gal­vask­ur og keyri þessa tón­leika í gegn.“Það var sama hugarfarið þegar hann tók þátt í leiksýningunni Ellý í Borgarleikhúsinu, þar sem áhorfendamet var slegið í júní á síðasta ári, eftir tvö ár af sýningum fyrir fullu húsi. Fyrst á Nýja sviðinu og svo því Stóra. Sýningarnar urðu 220 talsins og mætti Raggi nánast á hverja einustu. Hann var þó ekki í neinu hlutverki, heldur kom hann og tók lagið í lok sýningar ásamt Katrínu Halldóru Sigurðardóttur sem fór með hlutverk Ellýjar.

Leiðir Ragga og Ellýjar lágu fyrst saman í hljómsveit Svavars Gests á sjötta áratugnum, en þau unnu mikið saman og urðu góðir vinir. Sýningin byggði á ævi hennar og ferli. Þar kom Raggi töluvert við sögu ásamt gömlum félögum, en það var Björgvin Franz Gíslason sem túlkaði hann. Það var raunar svo að allir þeir sem komu fyrir í sýningunni voru látnir, nema Raggi. Hann hafði því séð á eftir ansi mörgum félögum sem hann vann með á ferlinum. 

Á síðustu sýningunni var Raggi að jafna sig eftir aðgerð og þurfti að sitja, en röddin var alltaf eins, hún brast aldrei. Raggi þakkaði guði fyrir að röddin héldist þrátt fyrir að annað í skrokknum væri farið að gefa sig. „Rödd­in held­ur. Svo lengi sem hún ger­ir það syng ég,“ sagði hann í samtali við mbl.is skömmu fyrir 85 ára afmælið. Sama viðhorfið og rúmum 20 árum áður. En gleðin og jákvæðin var einkennandi fyrir þennan eilífðartöffara sem nú hefur kvatt sviðið í síðasta skipti.mbl.is