Rysjótt veður fram á laugardag

Spáð er rysjóttu veðri fram á laugardag og hviður gætu …
Spáð er rysjóttu veðri fram á laugardag og hviður gætu náð 30 m/sek. í höfuðborginni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veðrið næstu daga verður rysjótt að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Síðdegis á morgun og fram á laugardagsmorgun má búast við snjókomu eða skafrenningi víða á landinu. Gular viðvaranir taka gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Suðausturlandi og miðhálendinu síðdegis á morgun og hviður geta náð allt að 30 metrum á sekúndu í efri byggðum í borginni og á Seltjarnarnesi. 

Austanhríð mun ganga yfir landsvæðin þar sem viðvaranir taka gildi, en austanstórhríð á miðhálendinu. Ökumenn eru beðnir um að aka varlega. 

Gular viðvaranir taka gildi síðdegis á morgun, fimmtudag.
Gular viðvaranir taka gildi síðdegis á morgun, fimmtudag. Kort/Veðurstofan

Á Suðurlandi verður hvassast undir Eyjafjöllum þar sem vindstrengir geta staðbundið farið yfir 35 metra á sekúndu, líkt og í Öræfum. Búast má við éljagangi um tíma, en við suðurströndina er snjókomubakki sem gæti borist inn á land með samfelldri ofankomu og lélegu skyggni. Akstursskilyrði gætu orðið erfið og vegir ófærir, sérstaklega milli Hvolsvallar og Víkur og á Hellisheiði sem og á Mýrdalssandi og í Öræfum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Lélegt skyggni getur myndast á köflum á Reykjanesi og Kjalarnesi, en einnig er mjög hvasst og skafrenningur á Akranesi og í Borgarnesi, en úrkomuminna. Ökumenn eru beðnir um að sýna aukna aðgæslu. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is