Veiran setur mark sitt á öskudag

Arnar og Máni vígalegir í veiruvarnabúningum á öskudegi á Glerártorgi …
Arnar og Máni vígalegir í veiruvarnabúningum á öskudegi á Glerártorgi á Akureyri í morgun. Mbl.is/Margrét Þóra

Krakkar í öskudagsbúningum eru komin á kreik um allt land. Siðurinn hefur átt sér ríka hefð á Akureyri og þar tóku margir krakkar daginn snemma í morgun. Meðal þeirra sem hafa vakið athygli eru vinirnir Arnar og Máni sem settu sig í hlutverk heilbrigðisstarfsmanna sem verjast kórónuveirunni, COVID-19.

Arnar kom gagngert frá Grindavík til Akureyrar, til að taka þátt í öskudeginum með fyrrum skólabróður sínum, Mána. Arnar sagði fréttaritara Morgunblaðsins að hann hefði flutt til Grindavíkur fyrir tveimur árum en hefði áður verið í Lundaskóla á Akureyri með Mána og fleirum. Þeir fengu aðstoð frá mömmu Arnars við að gera þessa glæsilegu sýklavarnarbúninga sem vöktu athygli þeirra sem á vegi þeirra urðu.

Krakkarnir á Akureyri fjölmenntu m.a. í Glerártorg, þar sem efnt var til söngkeppni. Einnig voru skrautlega klædd börn á ferðinni á göngugötunni á Akureyri og víðar í miðbænum.

Eins og tíðkast á þessum degi eru foreldrar, afar og ömmur mikið í að skutla krökkunum á milli staða. Meðal þeirra sem voru á fullu í því í morgun á Akureyri var Ragnar Sverrisson, fyrrum kaupmaður í JMJ. Raggi sagðist hafa gefið börnum sælgæti á þessum degi í 55 ár í verslunarrekstri en núna væri hann í hlutverki bílstjóra með barnabörnin.



Morgunkorn og mjólk var þemað hjá þessum stelpum á Akureyri …
Morgunkorn og mjólk var þemað hjá þessum stelpum á Akureyri í morgun. Frá vinstri eru Eydís, Sóley, Ísadóra og Anna Kristín. Ísadóra kom frá Grenivík til að vera með í fjörinu. Þær gerðu búningana sjálfar. Mbl.is/Margrét Þóra
Ragnar Sverrisson kaupmaður í JMJ á árum áður, ók barnabörnum …
Ragnar Sverrisson kaupmaður í JMJ á árum áður, ók barnabörnum sínum á milli staða í morgun, kampakátur. Mbl.is/Margrét Þóra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert