Baudenbacher vann álit fyrir Ratcliffe

Lögfræðiálit sem unnið hefur verið af Carl Baudenbacher fyrir veiðifélagið …
Lögfræðiálit sem unnið hefur verið af Carl Baudenbacher fyrir veiðifélagið Streng segir frumvarp sem takmarkar atkvæðavægi í veiðifélögum brjóta gegn EES-samningnum og stjórnarskrá. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í lögfræðiáliti, sem fylgir umsögn veiðifélagsins Strengs um frumvarp um breytingu laga um lax- og silungsveiði, segir að takmarkanir á atkvæðavægi í veiðifélögum brjóti gegn ákvæðum EES-samningsins þar sem það mismunar landeigendum með veiðiréttindi á grundvelli þjóðernis auk þess sem það brjóti gegn reglum um frjálst flæði fjármagns.

Vekur sérstaka athygli að álitið er unnið af dr. Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, sem einnig vann lögfræðiálit fyrir ríkisstjórnina vegna innleiðingar þriðja orkupakkans.

„Mín skoðun er að lagafrumvarpið kann að fela í sér mismunun á grundvelli þjóðernis sem getur ekki talist réttmæt og þess vegna ólögleg,“ skrifar Baudenbacher. Hann segir frumvarpið í andstöðu við jafnræðisreglu og eignarrétt auk viðskiptafrelsis sem kveðið er á um í EES-samningnum.

Frumvarpinu er ætlað að efla stöðu smærri aðila í veiðifélögum með því að atkvæðavægi aðila og tengdra aðila verði takmarkað við 30%. Jafnframt er krafist 2/3 atkvæða allra félagsmanna til þess að samþykktir séu löglegar eða þeim breytt. „Breytingin hefur það í för með sér að enginn einn aðili geti drottnað yfir málefnum veiðifélaga,“ sagði í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu þegar frumvarpið var kynnt í október.

James Ratcliffe hefur undanfarin ár keypt upp fjölda jarða á …
James Ratcliffe hefur undanfarin ár keypt upp fjölda jarða á Norðausturlandi, en hann er mikill áhugamaður um laxveiði. Ljósmynd/Aðsend

Ratcliffe kemur að eignarhaldi 39 jarða

Í umsögn Strengs er fullyrt að í minnisblaði atvinnuvegaráðuneytisins til atvinnuveganefndar Alþingis í nóvember vegna frumvarpsins sé ekki fjallað um hvort frumvarpið samræmist alþjóðlegum skuldbindingum og stjórnarskrá, er þar vísað til eignarréttar.

Umsögnina undirritar framkvæmdastjóri veiðifélagsins, Gísli Stefán Ásgeirsson, sem hefur í samtali við mbl.is sagt frumvarpið einum til höfuðs, auðmanninum Jim Ratcliffe, en samkvæmt lögfræðiálitinu fer félag Ratcliffe, Halicilla Limited, með 86,67% hlut í Streng.

Þá kemur einnig fram í álitinu að Halicilla sé eigandi í 39 jörðum, þar af á félagið 22 jarðir að fullu en 17 jarðir og 2 beitilönd á hálendinu með öðrum. Þessum jörðum fylgja veiðiréttindi í sex ám: Selá, Hofsá, Miðfjarðará, Vesturdalsá, Hafralónsá og Svalbarðsá.

mbl.is