Beint flug í mikla smithættu

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi sem haldinn var í gær.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi sem haldinn var í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Beint flug er á milli Íslands og borgarinnar Verona á Ítalíu sem er í Venetó-héraði og því inni á svæði sem skilgreint er sem svæði með mikla smitáhættu vegna kórónuveirunnar. Sóttvarnalæknir telur ekki ástæðu til að takmarka flugferðir til og frá Verona. Fjórtán Íslendingar eru í sóttkví vegna þess að þeir hafa dvalið í héraðinu.

Enn er þó hægt að panta flugferðir til Keflavíkur frá Verona og frá Keflavík til Verona. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ekki sé ástæða til þess að loka á þessar samgöngur eða senda þá sem koma frá Verona í sóttkví við komuna til landsins.

Spurður hvort það sé eðlilegt að Verona og flugvöllurinn þar séu undanskilin því sem gildir annars um Venetó-héraðið segir Þórólfur:

„Það er mjög ólíklegt að smit eigi sér stað þegar fólk dvelur á svæðinu í stuttan tíma, þá til dæmis fólk sem hefur dvalið fyrir utan héraðið en fer á flugvöllinn til þess að fljúga til Íslands.“

Miðað er við að sérstakar varúðarráðstafanir séu teknar vegna þeirra sem hafa dvalið lengur en í sólarhring á svæðinu. 

„Smithættan við svona skamma dvöl er svo takmörkuð að okkur finnst ekki ástæða til þess að loka á allt flug til Verona.“

Íslendingar beiti harðari aðgerðum en aðrir

Landlæknir hefur skilgreint fjögur héruð á Ítalíu sem svæði með mikla smitáhættu. Héruðin Lombardíu (Langbarðaland), Venetó, Emilíu-Rómönju og Píemonte (Fjallaland). 

„Restin af Ítalíu er skilgreind sem svæði með litla smitáhættu. Við erum ekki að beita eins hörðum aðgerðum á öðrum svæðum á Ítalíu en við hvetjum fólk samt til að hafa varann á og gæta hreinlætis,“ segir Þórólfur og bætir við að hérlendis sé í raun gripið til mun harðari aðgerða hvað varðar Ítalíu en aðra staði.

„Við erum nú þegar að grípa til ýktra aðgerða, það eru mjög fáar Evrópuþjóðir sem eru að beita þessum hörðu aðgerðum sem við erum að gera þannig að við erum að beita harðari aðgerðum en hin Norðurlöndin til dæmis sem og önnur lönd. Við erum að stíga skrefinu lengra en margir aðrir.“

Icelandair flýgur til Verona og býður flugfélagið til að mynda upp á flugferð frá og til Verona næstkomandi laugardag.

mbl.is

Kórónuveiran

5. apríl 2020 kl. 13:25
1486
hafa
smitast
428
hafa
náð sér
38
liggja á
spítala
4
eru
látnir