Fimm í sóttkví og einn í einangrun á Ísafirði

Fimm eru í sóttkví og einn í einangrun á Ísafirði.
Fimm eru í sóttkví og einn í einangrun á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Fimm eru í sóttkví og einn í einangrun vegna mögulegrar kórónuveirusýkingar á Ísafirði, en frá þessu greindi Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í dag.

Stofnunin segir í færslu á Facebook að niðurstöðu sé að vænta úr sýnatöku þess einstaklings sem er í einangrun síðar í dag, en þetta eru fyrstu ráðstafanirnar sem gerðar eru á Vestfjörðum vegna kórónuveirunnar.

„Sóttkví er varúðarráðstöfun fyrir einkennalausa einstaklinga sem hafa verið á ferðalögum á skilgreindum áhættusvæðum. Gripið er til einangrunar sem varúðarráðstöfunar ef einhver einkenni eru fyrir hendi sem mögulega geta verið Covid-19,“ segir í færslu heilbrigðisstofnunarinnar vestra.

Starfsmaður Fossvogsskóla í sóttkví

Einn starfsmaður Fossvogsskóla er þessa dagana í heimasóttkví eftir dvöl á svæði þar sem fólk hafði greinst með kórónuveiruna.

Þetta sagði skólastjóri Fossvogsskóla í tölvupósti til foreldra nemenda skólans í dag. Skólastjórinn brýndi sömuleiðis fyrir foreldrum að senda börn ekki í skólann fyrr en að aflokinni tveggja vikna sóttkví, hafi fjölskyldan ferðast um þau svæði þar sem smithætta er talin mikil.

Um tuttugu manns í sóttkví á landinu öllu

Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á blaðamannafundi fyrr í dag að um tuttugu manns væru í heimasóttkví hér á landi eftir ferðalög erlendis.

Hjón eru í sóttkví á Egilsstöðum eftir skíðaferð til Cortina á Ítalíu og tólf til viðbótar sem voru í þeirri sömu ferð hafa einnig verið beðnir um að vera í heimasóttkví.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert