Kostnaður við endurbætur á ráðhúsi fram úr áætlunum

Ráðhús Árborgar á Selfossi.
Ráðhús Árborgar á Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi

Deilur standa yfir í bæjarstjórn Árborgar um það hvernig hefur verið staðið að endurbótum á ráðhúsi sveitarfélagsins á Selfossi.

Endurbæturnar, sem enn standa yfir, hófust árið 2019. Þá féllu þær ekki innan þáverandi fjárhagsáætlunar og hafa síðan þá farið langt fram úr kostnaðaráætlun.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu.

Fram kemur að upphaflega hafi verið ákveðið að veita fimm milljónum króna til ákveðinna verka en að framkvæmdin hafi undið upp á sig og endi í um eitt hundrað milljónum.

Minnihluti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn lagði fram tillögu á fundi á dögunum og óskaði eftir því að gerð yrði óháð úttekt vegna embættisfærslna vegna framkvæmdanna.

Í breytingartillögu meirihluta bæjarstjórnar er lagt til að „gerð verði óháð úttekt utanaðkomandi aðila á embættisfærslum og ferli mála sem varðar undirbúning, hönnun og framkvæmd á nokkrum framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum, með það að markmiði að bæta verklag og verkferla við mismunandi framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert