Lögregla segir ekki um hatursglæp að ræða

„Því er ekki um hatursglæp að ræða svo því sé …
„Því er ekki um hatursglæp að ræða svo því sé haldið til haga,“ segir í tilkynningu frá lögreglu, sem segist taka þetta fram vegna umfjöllunar um málið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að rannsókn á grófri líkamsárás sem unglingspiltur varð fyrir við Hamraborg fyrr í mánuðinum hafi leitt í ljós að árásin tengdist ekki kynþætti piltsins sem fyrir henni varð.

„Því er ekki um hatursglæp að ræða svo því sé haldið til haga,“ segir í tilkynningu frá lögreglu, sem segist taka þetta fram vegna umfjöllunar um málið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Faðir drengsins hefur stigið fram í fjölmiðlum og sagt að mögulegt sé að útlendingaandúð hafi legið að baki árásinni, en lögregla segir svo ekki vera.

Lögregla segir að rannsókn á þessari grófu árás miði „mjög vel“ og margir hafi verið kallaðir til hennar vegna, en rannsóknin er unnin með aðkomu barnaverndaryfirvalda.

mbl.is