Björgunarsveitir önnum kafnar á Suðurnesjum

Þessi mynd er frá einu verkefni björgunarsveita í Vogum í …
Þessi mynd er frá einu verkefni björgunarsveita í Vogum í gær. Ljósmynd/Þröstur Njáls

Björgunarsveitirnar á Suðurnesjum hafa þurft að aðstoða ökumenn sem hafa fest bíla sína í alla nótt. Þungfært er á svæðinu og verið er að reyna að halda stofnæðum opnum. Að sögn lögreglunnar hefur þurft að losa tugi bíla og jafnvel yfir eitt hundrað.

Verst hefur ástandið verið við Ásbrú þar sem talsvert hefur skafið. Verið er að vinna í því að halda vegum þar opnum.

Björgunarsveitirnar á Suðurnesjum höfðu einnig nóg að gera í gærkvöldi og þá var ástandið verst á Grindavíkurvegi. 

Lögreglan varar ökumenn við því að fara af stað á illa búnum bílum. Eitthvað hefur fækkað í hópi björgunarsveita á Suðurnesjum með morgninum en þær eru þó enn að við að aðstoða fólk.

Í nótt voru björgunarsveitir einnig ræstar út til að aðstoða ökumenn sem voru fastir á Hafravatnsvegi, Þingvallavegi og  Suðurlandsvegi, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert