Ferðatakmarkanir ekki inni í myndinni

„Ég bendi á það að Ítalía hefur verið það land …
„Ég bendi á það að Ítalía hefur verið það land í Evrópu sem hefur beitt hvað hörðustu aðgerðunum gegn ferðamönnum. Ferðir þeirra hafa verið takmarkaðar víðs vegar um landið og þrátt fyrir það er Ítalía í verstu stöðu í Evrópu,“ segir Þórólfur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flug til Íslands frá borginni Verona í Venetó-héraði á Ítalíu verður hvorki takmarkað né stöðvað en borgin er inni á skilgreindu hættusvæði vegna kórónaveirunnar COVID-19. Íslendingurinn sem sýktur er af veirunni hafði dvalið í útjaðri svæðisins sem skilgreint er sem hættusvæði, héraðsins Venetó. Fólk sem þaðan kemur til Íslands er ekki skyldað í sóttkví en þó er mælst til þess að það fólk fari í sóttkví í 14 daga, að sögn Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis.

Hann segir einnig að ferðatakmarkanir hafi ekki skilað tilætluðum árangri í baráttunni við veiruna hingað til og það sé hvorki gerlegt né fyrirhugað að ferðir til landsins verði takmarkaðar.

„Það er ekki inni í myndinni að takmarka flug til Verona en það hefur verið rætt og yfirvöld hafa ekki talið að það væri ráðlegt að gera það,“ segir Þórólfur. 

Á morgun kemur hópur Íslendinga frá Verona til Íslands en Icelandair býður upp á beint flug til og frá borginni. Í fluginu á morgun eru einungis Íslendingar en Þórólfur segir að í framhaldinu verði kannað hversu stór hluti þeirra sem koma með flugi frá Norður-Ítalíu séu erlendir farþegar og skilaboðum verði komið áleiðis til þeirra.

Verri faraldur ef fólk hunsar tilmæli

Spurður hvort fólk sem fljúgi frá Verona til Íslands verði skyldað í sóttkví segir Þórólfur:

„Við mælumst til þess við Íslendinga að þeir fari í sóttkví. Við getum ekki skyldað þá og við erum ekki með neina lögreglu til að fylgja þeim. Við erum að höfða til almennings, að almenningur fari eftir þessum reglum því þá er von um árangur. Ef fólk fer ekki eftir þessum tilmælum og leiðbeiningum þá munu þessar aðgerðir ekki skila árangri og þá fáum við miklu verri faraldur.“

Þórólfur segir að vissulega sé ástæða fyrir Íslendinga til að hafa áhyggjur af veirunni rétt eins og öðrum faröldrum. 

„Ég held þó að það sé gott að hafa í huga að það er þrátt fyrir allt 80% sem fá veiruna mjög vægt og það eru þá 5-10% sem fá hana alvarlega. Þá fer það bara eftir því hversu mikil útbreiðslan er hversu margir einstaklingar lenda í því.“

Ferðatakmarkanir ógerlegar

Spurður hvað þurfi að koma til svo ferðatakmörkunum verði komið á segir Þórólfur að nú þegar séu yfirvöld að beita hörðum aðgerðum. Mögulega þurfi þó að herða þær, sem og aðrar aðgerðir. Þar nefnir Þórólfur helst samkomubann.

„Það er hægt að beita harðari aðgerðum hvað varðar farþega sem koma til landsins og fá fleiri til að fara í sóttkví þegar heim er komið en það er hvorki inni í myndinni né gerlegt þó það sé lagalega mögulegt að beita ferðatakmörkunum til landsins.“

Þórólfur segir að það hafi sýnt sig að ferðatakmarkanir skili ekki árangri í baráttunni við kórónuveiruna.

„Ég bendi á það að Ítalía hefur verið það land í Evrópu sem hefur beitt hvað hörðustu aðgerðunum gegn ferðamönnum. Ferðir þeirra hafa verið takmarkaðar víðs vegar um landið og þrátt fyrir það er Ítalía í verstu stöðu í Evrópu.“

Aukinn kostnaður verður í heilbrigðiskerfinu öllu vegna veirunnar og segir Þórólfur að ríkisstjórnin hafi verið mjög jákvæð fyrir því að gera það sem hún getur til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert