Gengur laus eftir tilraun til vopnaðs ráns

Maðurinn sagðist hafa verið það fullur að hann muni ekkert …
Maðurinn sagðist hafa verið það fullur að hann muni ekkert eftir atvikum í versluninni. Ljósmynd/Víkurfréttir

Karlmaður, sem er grunaður um tilraun til vopnaðs ráns í verslun úr­smiðsins Georgs V. Hannah í Reykja­nes­bæ á fimmtudaginn í síðustu viku, er laus úr varðhaldi. Hann var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í síðustu viku en Landsréttur hefur fellt úrskurðinn úr gildi.

Í niðurstöðu Landsréttar kemur fram að maðurinn sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem varði allt að 16 ára fangelsi.

Hins vegar torveldi það ekki rannsókn málsins þótt maðurinn sé frjáls ferða sinna né sé gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum mannsins.

Fram kom í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem úrskurðaði manninn í fjögurra vikna varðhald, að maðurinn hafi tjáð vini að hann hefði verið svo drukkinn að hann hefði næstum verið með áfengiseitrun.

Maðurinn er sagður hafa brotið allt og bramlað í versluninni þangað til lögregla kom á vettvang og leiddi hann út í járnum. Hann hefur ekki komið við sögu lögreglu áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert