Hættuspil að halda starfsfólki við hungurmörk

Drífa Snædal.
Drífa Snædal. mbl.is/Árni Sæberg

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að komið sé að þanþolum borgarinnar og almennings vegna verkfalls Eflingar. Enginn fari í verkfall að gamni sínu, hvað þá að forystufólk geti með handafli fengið samþykkta verkallsboðun meðal félagsmanna.

„Þeir sem tala svo sýna félagsmönnum Eflingar vanvirðingu og það verður sannanlega ekki til að leysa deiluna,“ segir Drífa í föstudagspistli sínum. 

Þar kemur fram að verkfall Eflingar sé áminning um mikilvægi þeirra starfa sem eru unnin á vegum Reykjavíkurborgar.

Drífa segir að á meðal þeirra sem eru í verkfalli sé fólk sem lifi við fátækt og skammist sín jafnvel fyrir launin sín. Það hafi fengið þau skilaboð frá samfélaginu að það sé ekki meira virði en launaseðillinn gefur til kynna.

„Að beita verkfallsvopninu er krafa um betri kjör en líka krafa um áheyrn og virðingu. Að halda starfsfólki við hungurmörk er hættuspil. Ekki einungis er það fullkomin vanvirðing heldur mun það leiða til þess að fólk fyllist örvæntingu og grípi til sinna aðgerða. Við höfum í áratugi talað um að leiðrétta launamun kynjanna, að leiðrétta kvennastörf sérstaklega. Allir sem hafa verið í almannasamtökum hafa kvittað upp á fjölda ályktana í þá veru, sérstaklega fólk sem hefur tekið þátt í stjórnmálum,“ segir Drífa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert