Lögbann á verkfall ekki komið til tals

Katrín segir mikla ábyrgð hvíla á bæði borginni og Eflingu …
Katrín segir mikla ábyrgð hvíla á bæði borginni og Eflingu að komast að niðurstöðu í kjaradeilunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögbann á verkfall Eflingar hefur ekki komið til tals innan ríkisstjórnarinnar, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ótímabundið verkfall 1.850 félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hefur nú staðið í 12 daga. Samninganefndir borgarinnar og Eflingar hittust síðast á fundi hjá ríkissáttasemjara í fyrradag en ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilunni. Verkfallið hefur mikil áhrif út í samfélagið, þá sérstaklega á fjölskyldur leikskólabarna, en margir foreldrar eru komnir í töluverð vandræði vegna mikilla fjarvista frá vinnu.

Katrín segir mikla ábyrgð hvíla á báðum samningsaðilum og það sé mikilvægt að báðir aðilar leggi sig alla fram um að finna ásættanlega lausn.

„Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem við sjáum átök á vinnumarkaði. Stundum er dimmast rétt fyrir dagrenningu. Þannig eigum við ekki bara að vona að það verði einhver dagrenning í þessu máli. Ég ætla bara að treysta á að bæði Efling og Reykjavíkurborg leggi sig öll fram um að finna lausn,“ segir Katrín.

„Við erum auðvitað sjálf í samningaviðræðum af hálfu ríkisins þar sem boðuð hafa verið verkföll, en við fylgjum þar leiðarljósi lífskjarasamninganna. Ég veit að það er búið að sitja við þar þessa vikuna. Þetta er auðvitað mikil ábyrgð sem hvílir á öllum aðilum, hvort sem það eru borgin og Efling eða ríkið og viðsemjendur okkar. Vísar Katrín þar til BSRB þar sem 18 þúsund félagsmenn hafa samþykkt að hefja verkfallsaðgerðir 9. mars næstkomandi, hafi samningar ekki náðst.

Katrín segist hóflega bjartsýn á að hægt verði að leysa þá kjaradeilu áður en kemur til verkfalls.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert