Ráðast í aukin útgjöld vegna kórónuveirunnar

„Það er mikilvægt að hver og einn hugsi um sínar …
„Það er mikilvægt að hver og einn hugsi um sínar hreinlætisvenjur og handþvott, að við höldum knúsi á mannamótum í lágmarki og reynum að nota gamla góða vinkið þegar við erum að hitta fólk og förum eftir fyrirmælum,“ segir Svandís. mbl.is/Hari

Ráðist verður í aukin útgjöld vegna kórónuveirunnar sem nú hefur greinst hér á landi. Fjölga þarf heilbrigðisstarfsfólki, tryggja aukna þjónustu í síma læknavaktarinnar (1700) og mögulega þarf að finna staðsetningu vegna sóttkvíar og annarrar þjónustu. 

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, en hún bendir á að þar sem almannavarnaástand hafi verið hækkað upp á hættustig sé augljóst að ráðist verði í aukin útgjöld.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítalans, segir að Landspítalinn sé eins vel undirbúinn og hann geti verið, nú sé forgangsraðað enn stífar á spítalanum en vant er. 

Íslendingar grípi í gamla góða vinkið

Á síðustu mánuðum hefur ástand á bráðamóttöku verið til umræðu, meðal annars í fjölmiðlum, og sagði læknir á Landspítala fyrir áramót að stórslys væri þar í aðsigi. Spurð hvort íslenska heilbrigðiskerfið sé í raun í stakk búið til að takast á við faraldur sem þennan segir Svandís:

„Við höfum verið að búa okkur undir þetta undanfarnar vikur og ég fór með minnisblað í ríkisstjórn frá Landspítala um svona sértækar ráðstafanir til þess að geta tryggt einangrun og umönnun sjúklinga við þessar kringumstæður. Við erum tilbúin, það þurfti að gera tilteknar ráðstafanir en þær eru flestar komnar til framkvæmda. Ég tel að Landspítalinn, sjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæslan sé tilbúin í að glíma við það sem fram undan er.“

Svandís biðlar til almennings að halda ró sinni enda eigi Íslendingar kerfi sem sé vel í stakk búið til að takast á við veiruna. 

„Það er mikilvægt að hver og einn hugsi um sínar hreinlætisvenjur og handþvott, að við höldum knúsi á mannamótum í lágmarki og reynum að nota gamla góða vinkið þegar við erum að hitta fólk og förum eftir fyrirmælum.“

mbl.is

Kórónuveiran

29. mars 2020 kl. 13:53
1020
hafa
smitast
135
hafa
náð sér
25
liggja á
spítala
2
eru
látnir