Stór áfangi að ólík ráðuneyti geti unnið saman

Katrín er ánægð með skilvirka samvinnu sex ráðuneyta.
Katrín er ánægð með skilvirka samvinnu sex ráðuneyta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gert verður ráð fyrir því í fjármálaáætlun ríkisins sem kynnt verður eftir nokkrar vikur að 900 milljarðar króna fari í framkvæmdir hins opinbera og innviðafyrirtækja til að tryggja öryggi og jöfn tækifæri fólks um allt land. Þar af er gert ráð fyrir 27 milljörðum í framkvæmdir sem verður flýtt. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Framkvæmdirnar snúa að nauðsynlegum úrbótum á innviðum sem í ljós kom að virkuðu ekki sem skyldi þegar óveður gekk yfir landið í desember síðastliðnum. Tillögur átakshóps um úrbætur voru kynntar í dag.

Ekki allt í henglum

Það sem er sérstakt við vinnuna er að hún er samstarf sex ráðuneyta, en Katrín segist mjög ánægð með útkomuna. Það sé stór áfangi að sýna fram á að ólík ráðuneyti geti unnið hratt og vel saman þegar þörf er á. „Það sem ég er ánægð með er hvað við getum áorkað miklu þegar við vinnum saman. Við erum ekki með stjórnskipan sem gerir ráð fyrir því, þannig að þetta er ný nálgun og ég er mjög stolt af henni,“ segir Katrín.

„En um leið finnst mér það mjög gott við þessa vinnu að hún snýst ekki bara um að slumpa á hvað við teljum að þurfi að gera, heldur er búið að leggja línurnar um heildstætt yfirlit um allt það sem er verið að gera. Það er verið að verja mjög miklum fjármunum í innviðauppbyggingu á hverju ári, 900 milljörðum frá ólíkum aðilum á næstu tíu árum. Það er ekki eins og allt sé hérna í henglum, það er margt mjög vel gert, en það er búið að greina veikleikana og gera tillögur til úrbóta.“

Uppbygging snjóflóðavarna og raflínur í jörð mikilvægast 

Skýrsla átakshópsins er yfirgripsmikil en þar er farið yfir 540 aðgerðir sem gert er ráð fyrir að komi til framkvæmda á næstu tíu árum, þar af 192 nýjar aðgerðir og 40 aðgerðir sem lagt er til að verði flýtt í framkvæmdaáætlun Landsnets og dreifiveitna.

En hvaða atriði eru mikilvægust að mati Katrínar?

„Annars vegar eru það þessir stóru póstar, að flýta uppbyggingu snjóflóða- og ofanflóðavarna til 2030 en á óbreyttum hraða væri þeim lokið í kringum 2050. Það er auðvitað risamál. Síðan er það flýting jarðstrengjaframkvæmda, það er að segja að koma raflínum í jörð, til 2025. Sem er annað risastórt mál og mun skipta miklu máli fyrir orkuöryggi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina