Þorleifur Örn til liðs við Þjóðleikhúsið

Þorleifur Örn Arnarsson.
Þorleifur Örn Arnarsson. Ljósmynd/Aðsend

Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri hefur gert samkomulag við Þjóðleikhúsið um að setja upp eina sýningu í leikhúsinu á hverju leikári næstu árin.

Hann mun jafnframt vinna með Þjóðleikhúsinu að því að efla alþjóðlegt samstarf leikhússins og veita leikhúsinu listræna ráðgjöf á tímabilinu, að því er segir í tilkynningu.

„Þorleifur hefur náð gríðarlegum árangri sem leikstjóri í Evrópu á síðustu árum og starfar í leikhúsum víða um Evrópu.  Nú gegnir hann stöðu yfirmanns leiklistarmála hjá Volksbühne í Berlín, einu virtasta leikhúsi Þýskalands. Hann var nýlega útnefndur leikstjóri ársins í Þýskalandi. Á undanförnum árum hefur hann sett upp rómaðar sýningar hérlendis sem margar hverjar hafa hlotið fjölda verðlauna. Meðal nýlegra sýninga hans eru Englar alheimsins, Njála og Guð blessi Ísland,“ segir í tilkynningunni.

Þorleifur mun halda áfram að leikstýra við erlend leikhús samhliða því sem hann leikstýrir fyrir Þjóðleikhúsið. Fyrsta frumsýning hans verður strax á næsta leikári, ný gerð Þorleifs af Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare. Hann mun ekki vinna við önnur leikhús hérlendis.

„Það er mér mikið gleðiefni að snúa aftur til starfa við Þjóðleikhúsið og leggja mitt á vogarskálarnar næstu árin fyrir leikhús allra Íslendinga. Það eru afskaplega spennandi hlutir að gerast í Þjóðleikhúsinu og leikhúsið stendur á skapandi tímamótum. Ég hlakka til að vinna með þeim öfluga hópi sem þar mun starfa á næstu árum. Ég mun nýta reynslu mína og tengsl til þess að opna á alþjóðlegt samtal og samstarf," segir Þorleifur Örn í tilkynningunni.

„Það er sannarlega mikill fengur að því fyrir okkur í Þjóðleikhúsinu að fá Þorleif Örn í okkar hóp. Hann á margar af eftirminnilegustu sýningum síðustu ára hér á landi og hefur náð undraverðum árangri á erlendri grundu á undanförnum árum. Hann er uppfullur af hugmyndum sem ég hlakka til að sjá öðlast líf á sviði Þjóðleikhússins,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert