Uggandi yfir niðurfellingu skólastarfs

Réttarholtsskóli.
Réttarholtsskóli. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn foreldrafélags Réttarholtsskóla lýsir yfir þungum áhyggjum af niðurfellingu hefðbundins skólastarfs vegna verkfalls Eflingar. Nemendur mæta í skólann einungis hluta af lögbundnum tíma vegna þess að ekki er unnt að taka við öllum nemendum í einu, þar sem skólastjóri einn getur haldið lágmarksþrifum uppi.

Staðan felur það í sér að nemendur fá ekki þá kennslu sem þeim ber, að því er fram kemur í ályktun frá stjórn foreldrafélagsins.

„Þá blasir við að ójafnræði nemenda í Réttarholtsskóla gætir gagnvart nemendum í öðrum grunnskólum Reykjavíkur sem verkfallið hefur ekki bitnað eins harkalega á og ekki hafa þurft að fella niður hefðbundið skólastarf,“ kemur fram í ályktuninni.

Minnt er á að 10. bekkur lýkur senn sinni grunnskólagöngu og 9. bekkur fer í samræmd könnunarpróf eftir tvær vikur. Enn fremur er minnt á að á Íslandi er skólaskylda samkvæmt lögum.

Foreldrafélagið skorar því á Reykjavíkurborg að ganga til samninga hið fyrsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert