Andlát: Wolfgang Edelstein

Ráðstefna til heiðurs Wolfgang var haldin hér á landi árið …
Ráðstefna til heiðurs Wolfgang var haldin hér á landi árið 2007. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Dr. Wolfgang Edelstein, sem lengi var ráðgjafi menntamálaráðherra og stýrði ýmsum umbótaverkefnum í skólakerfi landsins, lést í Berlín í morgun 90 ára að aldri. Wolfgang varð íslenskur ríkisborgari nítján ára gamall eftir að hafa flúið með fjölskyldu sinni frá Þýskalandi nasismans árið 1938.

Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949 hélt Wolfgang til háskólanáms í Frakklandi þar sem hann lagði stund á málvísindi, latínu og bókmenntir. Doktorsritgerð sína skrifaði hann við háskólann í Heidelberg í Þýskalandi þar sem hann hafði einbeitt sér að miðaldasögu, latínu og uppeldisfræðum.

Hann var ráðinn til starfa við Odenwald-skólann í Suður-Þýskalandi árið 1954 sem kennari en varð síðar námstjóri. Síðar starfaði hann við Max-Planck-rannsóknarstofnunina í uppeldis- og menntamálum frá stofnun hennar árið 1963 þar til hann lét af störfum árið 1997.

Wolfgang var þekktastur hér á landi fyrir áhrif á þróun skólastarfs á 20. öldinni og er talinn vera í hópi þeirra sem mest höfðu áhrif. Hann var ráðgjafi menntamálaráðherra frá árinu 1966 til 1984 og svo aftur á árunum 1989 til 1991 um mótun skólastefnu. Stýrði hann á þeim tíma mörgum umbótaverkefnum meðal annars á vegum skólarannsóknadeildar menntamálaráðuneytisins sem var stofnuð að undirlagi hans.

Wolfgang flúði til Íslands frá Þýskalandi nasismans um miðja síðustu …
Wolfgang flúði til Íslands frá Þýskalandi nasismans um miðja síðustu öld. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ráðgjöf Wolfgangs tengdist meðal annars setningu fyrstu grunnskólalaganna árið 1974 og nýrri námskrá sem sett var samhliða lagasetningunni. Námskráin var byggð á hugmyndum framsækinnar kennslufræði (e. progressive education) og þótti róttæk á sínum tíma.

Auk þess að koma að heildarendurskoðun námsefnis og kennslu vakti hann með fjölmörgum fyrirlestrum sínum marga til umhugsunar um mikilvægi fagmennsku í skólastarfi. Þá hóf hann rannsókn, í samstarfi við Sigurjón Björnsson prófessor, árið 1976 hér á landi á uppvexti, þroska og félagslegum aðstæðum barna og ungmenna. Rannsóknin er ein viðamesta langsniðsrannsókn á þroskaferlum einstaklinga sem gerð hefur verið.

Þá gaf Wolfgang út fjölda bóka, bókarkafla og greina um rannsóknir sínar. Einn helsti samstarfsmaður Wolfgangs var eiginkona hans, þroskasálfræðingurinn Monika Keller.

Wolfgang var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót frá félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1995 fyrir störf sín að skólamálum og rannsóknum. Hann hlaut nafnbót heiðursprófessors við Freie-háskólann í Berlín og við Potsdam-háskólann. Árið 2009 hlaut hann Hildegard Hamm-Brücher-verðlaunin fyrir framlag sitt til að efla lýðræðismenntun og árið 2012 var Wolfgang sæmdur Theodor Heuss-verðlaununum fyrir störf sín á þágu lýðræðisuppeldis.

Heimildir:

Vísindavefurinn

Viðtal Society for Research in Child Development við Wolfgang

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert