Efling samþykkir undanþágu vegna kórónuveiru

Sorphirða hefst aftur í Reykjavík þrátt fyrir verkfall Eflingar. Veitt …
Sorphirða hefst aftur í Reykjavík þrátt fyrir verkfall Eflingar. Veitt var undanþága vegna kórónuveirunnar og aukinnar smithættu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efling hefur samþykkt beiðni Reykjavíkurborgar um undanþágu frá verkfalli vegna sorphirðu. Var beiðnin sett fram vegna þess að talið var að verkfallið gæti dregið úr áhrifum sóttvarnaúrræða vegna kórónuveirunnar.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, staðfestir undanþáguna við mbl.is. Kom hún í fyrradag á borð Eflingar og var sett í hraðmeðferð þegar ljóst var að smit hefði greinst hér á landi í gær. Óskaði Efling eftir afstöðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og barst það í dag líkt og mbl.is hefur greint frá.

Viðar segir að strax í kjölfarið hafi verið leitað eftir samþykki undanþágunefndar og kom það samþykki hratt og var einróma.

Um er að ræða opna undanþágu vegna sorphirðu í Reykjavík og nær hún til næsta föstudags. Segir Viðar að í framhaldinu verði málið metið að nýju.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/​Hari

Í kvöld barst svo einnig undanþágubeiðni sem varðar sérstaklega velferðarsvið Reykjavíkurborgar og nær til hjúkrunarheimila og búsetustaða aldraðra. Hafði almannavarnadeildin einnig minnst á þá hópa sem viðkvæmastir eru í tilkynningu sinni í dag: „Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir lýsa yfir áhyggjum vegna yfirstandandi og yfirvofandi verkfalla. Þetta eru aðgerðir sem geta haft áhrif á viðkvæmustu hópa samfélagsins eins og fólk á hjúkrunarheimilum. Þá getur takmörkuð sorphirða jafnframt dregið úr áhrifamætti sóttvarnaaðgerða.“

Viðar segir að fjallað verði um þessa beiðni eins fljótt og auðið er og hún unnin eftir að rætt hefur verið við almannavarnadeildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert