Heilsan er ekki sjálfsögð

Rannveig Rist, forstjóri álversins í Straumsvík. Hún fór í veikindaleyfi …
Rannveig Rist, forstjóri álversins í Straumsvík. Hún fór í veikindaleyfi eftir að hún áttaði sig á því að hún var komin með sömu einkenni og faðir hennar hafði áður en hann veiktist. mbl.is/RAX

Þegar hann var 63 ára fékk Sigurjón Rist vatnamælingamaður heilaáfall sem í þá daga var kallað heilablóðfall og lamaðist annars vegar í líkamanum. Nú, fjörutíu árum síðar, áttaði dóttir hans, Rannveig Rist, sig á því að hún var komin með sömu einkenni og faðir hennar hafði áður en hann veiktist og hafði samband við hjartalækni sinn. Hann rannsakaði hana þegar í stað og niðurstaðan er sú að hún er komin í veikindaleyfi frá starfi sínu sem forstjóri álversins í Straumsvík fram á haust til að ná fullri heilsu á ný.

Það var hvorki auðvelt né sjálfsagt fyrir Rannveigu Rist að mæta í viðtalið sem hér fer á eftir. „Ég hef alltaf verið svolítil Greta Garbo þegar kemur að einkalífinu,“ trúir hún mér fyrir þegar fundum okkar ber saman fyrsta daginn sem hún er í veikindaleyfi frá starfi sínu sem forstjóri ISAL í Straumsvík. Hún upplýsti á föstudaginn fyrir rúmri viku að hún væri á leið í veikindaleyfi fram á haust að ráði hjartalæknis.

Rannveig hefur verið áberandi í íslensku atvinnulífi í þrjá áratugi eða svo; fyrst sem talsmaður og síðan forstjóri álversins í Straumsvík en hún var fyrsta konan sem settist í stól forstjóra stórfyrirtækis á Íslandi árið 1997. Fyrir vikið er hún alvön samskiptum við fjölmiðla og er reglulegur gestur í ljósvaka- og prentmiðlum. Það hefur þó fyrst og síðast verið til að ræða málefni álversins sem er hluti af einum stærsta álframleiðanda í heimi, Rio Tinto. Miklu minna hefur farið fyrir manneskjunni Rannveigu enda hefur hún markvisst valið að halda einkalífi sínu utan fjölmiðla gegnum tíðina.

„Ég velti þessu mikið fyrir mér og niðurstaðan var sú að fara í persónulegt viðtal núna til að gera grein fyrir veikindaleyfinu sem ég er komin í. Annars vegar skiptir það mig miklu máli að hafa allt uppi á borðinu og koma um leið í veg fyrir að einhverjar sögur fari á kreik og hins vegar langar mig að vekja athygli á mikilvægi þess að fólk gefi heilsufarslegum hættumerkjum gaum áður en það er um seinan,“ heldur Rannveig áfram.

Öryggismál hafa löngum verið sett á oddinn í Straumsvík og mottóið er að „staldra við“ ef grunur leikur á því að ekki sé allt með felldu. Það er nákvæmlega það sem Rannveig er að gera. „Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum og ég vil halda henni eins lengi og unnt er,“ segir hún.

Mikið pabbabarn

Upp á samhengið skulum við byrja á því að hverfa fjörutíu ár aftur í tímann. Sem barn og unglingur var Rannveig öll sumur með föður sínum, Sigurjóni Rist, við vatnamælingar úti á landi. „Ég var algjört pabbabarn og hann var fyrirmynd mín í svo mörgu. Fyrir vikið vissi ég ekkert skemmtilegra en að þvælast með honum um landið, sofa í trukkum og stunda vatnamælingar. Sjálfur hafði pabbi mikið yndi af starfi sínu og það smitaði út frá sér. Það eru mikil forréttindi í lífinu að stunda vinnu sem maður hefur ánægju af,“ segir Rannveig.

„Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum og ég vil …
„Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum og ég vil halda henni eins lengi og unnt er,“ segir Rannveig. mbl.is/RAX

Þess má geta að Sigurjón var frumherji í íslenskum vatnamælingum og kom á kerfisbundnum rennslismælingum í vatnsföllum landsins, annaðist dýptarmælingar og kortlagningu stöðuvatna og sá um útgáfu árlegra rennslismæligagna hjá Orkustofnun.

Sigurjón var á háþrýstingslyfjum, sem hann tók á morgnana, þegar hann fann fyrir háþrýstingnum en var annars heilsuhraustur; „þrekskrokkur og heljarmenni að burðum“, eins og dóttir hans lýsir honum. Það var því mikið reiðarslag þegar hann fékk heilaáfall og lamaðist öðrum megin sumarið 1980, 63 ára.

„Veikindi pabba komu eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ segir Rannveig sem var nýorðin nítján ára á þessum tíma. „Einn læknir sagði að oft væru einhverjar vísbendingar s.s höfuðverkur, náladofi og skortur á jafnvægi, undanfari svona áfalls. Ég fór að velta því fyrir mér og hugsaði til baka til sumarsins, þá sá ég að það voru ákveðnar vísbendingar um það vikurnar og mánuðina fyrir áfallið að pabbi væri ekki eins og hann ætti að sér að vera. Hann hafði til dæmis ekki dottið við rennslismælingu í á nema einu sinni frá árinu 1947 en það gerðist í tvígang þetta sumar. Svo var hann farinn að missa hluti og reka þá í. Hann braut til dæmis kaffibollann sinn, sem var stór og þykkur, skömmu áður, þegar hann rak hann í. Minnstu munaði líka að við fengjum loftpressu yfir okkur þegar við vorum að lyfta henni upp á bílpall og pabbi rak sinn enda pressunnar í pallinn. Það var mjög ólíkt honum. Ég man að mér þótti þetta skrýtið en tengdi það eigi að síður ekki við veikindi. Þegar maður er nítján ára eru veikindi líklega ekki manns fyrstu hugsanir þegar eitthvað óvenjulegt á sér stað,“ segir Rannveig en þótti það mikil sorg að hvorugt okkar var læst á þessi einkenni. „En það þýðir víst lítið að velta því fyrir sér. Því miður.“

Allur tilfinningaskalinn

Sem hendi væri veifað var Sigurjón orðinn sjúklingur, í hjólastól og þurfti að læra að ganga á nýjan leik. Hann féll frá árið 1994 hafði þá fengið sjö heilaáföll. „Vegna þess hversu vel hann var á sig kominn þoldi pabbi áfallið líklega betur en margir myndu gera. Þetta var samt gríðarlegt högg fyrir hann og hann fór gegnum allan tilfinningaskalann, vonbrigðin, reiðina, sorgina og allt það. Það tók hann tíma að sætta sig við orðinn hlut en svo varð pabbi hann sjálfur á ný. Sem betur fer hafði áfallið engin áhrif á persónuleika hans og hann tókst á við veikindi sín af æðruleysi og jákvæðni; hélt húmornum og lífsgleðinni uns yfir lauk.“

Veikindi Sigurjóns höfðu að vonum djúpstæð áhrif á heimilið; fyrir utan andlega þáttinn drógust tekjurnar saman. Það þýddi að móðir Rannveigar, María Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur og kennari við Fjölbrautarskólann í Breiðholti, þurfti að auka við sig vinnu. Hún á eina systur, Bergljótu, sem er fimm árum yngri og hún því líka á viðkvæmum táningsaldri er áfallið reið yfir.

Í þessi fjörutíu ár sem síðan eru liðin hefur Rannveig verið með veikindi föður síns og aðdraganda þeirra í bakþankanum. Í byrjun þessa árs rann upp fyrir henni ljós; hún væri sjálf komin með sömu einkenni og hann var með fyrir áfallið. „Ég hef aldrei verið klaufsk en nú var ég allt í einu farin að hrasa og brjóta glös og bolla sem er alls ekki líkt mér. Newton var byrjaður að rífa hluti af mér sem hann gerði ekki áður,“ segir Rannveig og bætir við að hún, sem oft er á háum hælum, hafi ekki notað slíkt skótau síðan í október. „Það hefur bara verið svo mikill snjór að enginn hefur tekið eftir þessu.“

Spurð hvort hennar nánustu hafi verið farnir að veita því …
Spurð hvort hennar nánustu hafi verið farnir að veita því athygli að hún væri ekki eins og hún á að sér svarar Rannveig neitandi. „Ekki fyrr en greiningin var komin og ég fór að tala um þetta. Þá sást þetta í baksýnisspeglinum. Alveg eins og hjá pabba.“ mbl.is/RAX

Spurð hvort hennar nánustu hafi verið farnir að veita því athygli að hún væri ekki eins og hún á að sér svarar Rannveig neitandi. „Ekki fyrr en greiningin var komin og ég fór að tala um þetta. Þá sást þetta í baksýnisspeglinum. Alveg eins og hjá pabba.“

Hún fékk aldrei höfuðverk og tekur aldrei verkjalyf, átti þau ekki einu sinni til. „No brain, no pain, er ég vön að segja,“ útskýrir hún hlæjandi. „En nú var mjög slæmur höfuðverkur allt í einu farinn að vekja mig á morgnana, dag eftir dag í janúar. Það var ekki eðlilegt. Neglurnar á fingrunum á mér voru líka farnar að verða hrufóttar, alveg eins og hjá pabba og ég fann fyrir dofatilfinningu í líkamanum sem var mjög skrýtin. Loks var það blóðþrýstingurinn, sem ég mæli reglulega. Hann sveiflaðist verulega mikið upp og niður. Var allt of hár á morgnana en allt of lágur á kvöldin,“ segir Rannveig og bætir við að hún nálgist nú aldurinn sem faðir hennar var á þegar hann veiktist en hún er fædd árið 1961. „Var ég á leið í sama pyttinn?“

Hefur áður verið hætt komin

Til að gera langa sögu stutta þá leist Rannveigu ekkert á blikuna og hafði því samband við Davíð O. Arnar hjartalækni sem hún hefur farið til 1-2 sinnum á ári í 20 ár. „Ég fékk alvarlega meðgöngueitrun fyrir 27 árum og var í lífshættu í nokkra sólarhringa. Náði mér en hef látið fylgjast vel með mér síðan,“ segir Rannveig sem var nokkrum árum síðar hætt komin vegna brisbólgu. Rannveig hringdi í lækninn á föstudegi og eftir að hafa heyrt söguna gaf hann henni tíma strax á mánudagsmorgni. Skoðun þyldi enga bið. Niðurstaðan var sú að hún væri með verulega mikil einkenni sem stöfuðu af langvinnu álagi en þau voru meðal annars hár blóðþrýstingur, svæsinn höfuðverkur, dofi og klaufska í hennar tilviki. Þessi einkenni gætu verið undanfari heilaáfalls og að eina leiðin til að ná heilsu væri löng hvíld frá miklu álagi. „Auðvitað brá mér, ég get ekki neitað því, en á sama tíma var ég fegin að fá grun minn staðfestan og að geta þannig gripið inn í áður en að ég veiktist alvarlega. Tækifæri sem pabbi fékk aldrei. Davíð vildi senda mig strax í frí til að taka út álagsvaldana en ég sagði honum að ég þyrfti tvær vikur til að hnýta lausa enda í vinnunni; gera eigendum álversins grein fyrir stöðunni og tala við starfsfólkið. Hann féllst á það.“

Nánar er rætt við Rannveigu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, en þar kemur meðal annars fram að læknir hennar sé bjartsýnn á að hún nái fullum bata, að því gefnu að hún fái algjöra hvíld frá öllu álagi næstu mánuðina.

Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni í vefútgáfu hér.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »