Nærri 50 manns í sóttkví vegna kórónuveirusmitsins

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ásamt Ölmu …
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ásamt Ölmu D. Möller landlækni og Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra flæðisviðs Landspítala á blaðamannafundi í gær. mbl.is/Arnþór

Alls hafa 49 manns, sem tengjast íslenska manninum sem greindur hefur verið með kórónuveiru með einum eða öðrum hætti, verið settir í sóttkví. Sýni hafa verið tekin úr „þó nokkrum“ einstaklingum sem eru með einkenni sjúkdómsins og búist er við niðurstöðum úr rannsóknum síðar í dag segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Ekki voru tekin sýni úr þeim sem ekki voru með einkenni þar sem það er ekki talið skila marktækri niðurstöðu. „Ég veit ekki nákvæmlega hvað það voru margir [með einkenni] en það voru þó nokkrir sem voru teknir í sýnatöku í gærkvöldi og við fáum niðurstöður úr því eftir hádegi í dag,“ útskýrir Víðir.

Eitthvað af þessu fólki er enn þá statt erlendis í fríi og hafa yfirvöld verið í sambandi við þá einstaklinga og þeir beðnir um að vera í sóttkví þar sem þeir eru staddir.

Háskólinn í Reykjavík sendi nemendum tilkynningu í dag þar sem fram kemur að maðurinn sem er með kórónuveiruna sé maki stjórnanda við skólann en hún hefur ekki sinnt kennslu á þessari önn.

Staðfest var í gær að hún er ekki smituð af veirunni en hún verður í sóttkví næstu tvær vikur. Nemandi skólans sem var í sömu ferð og hjónin á Norður-Ítalíu er einnig í sóttkví en hann hefur ekki verið greindur með veiruna og sýnir engin einkenni smits.

Tæplega 80 manns eru í sóttkví hér á landi og í dag er von á stórum hópi Íslendinga með flugi frá Verona á Ítalíu. Flestum úr þeim hópi verður gert að vera í sóttkví í 14 daga.

Tölvupóstur sem Háskólinn í Reykjavík sendi frá sér vegna málsins.
Tölvupóstur sem Háskólinn í Reykjavík sendi frá sér vegna málsins. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert