Karllæga menningin seig

Rannveig Rist segir karllæga menningu í fyrirtækjum seigari en hún …
Rannveig Rist segir karllæga menningu í fyrirtækjum seigari en hún bjóst við. mbl.is/RAX

Það sætti miklum tíðindum þegar Rannveig Rist var ráðin forstjóri ÍSAL árið 1997. En hvað hefur breyst á þessum 23 árum varðandi konur í æðstu stjórnunarstöðum stærri fyrirtækja?

„Konur hafa menntunina og eru komnar lengra. Þær vilja stjórna en þrátt fyrir það gengur þessi þróun mjög hægt fyrir sig. Stjórnir fyrirtækja ráða ekki fólk til starfa, heldur framkvæmdastjórnir og það þarf, að mínu viti, að jafna kynjahlutföll í framkvæmdastjórnum til þess að koma meiri hreyfingu á þessi mál. Blandaðar framkvæmdastjórnir eru miklu víðsýnni en þær sem eru bara skipaðar körlum. Árið 2020 finnst mér eðlilegt að ekkert fyrirtæki ætti að fást skráð á verðbréfaþing nema það standi sig í jafnréttismálum. Eins umhverfismálum. Einnig mætti hugsa sér að umbuna fyrirtækjum, sem standa sig í þessum mikilvægu málaflokkum, með afslætti gagnvart sköttum eða öðrum gjöldum.“ Þetta segir Rann­veig Rist, for­stjóri ál­vers­ins, í viðtali við Sunnu­dags­blað Morg­un­blaðsins. 

Hún segir karllæga menningu í fyrirtækjum seigari en hún bjóst við. „Annars þarf það svo sem ekkert að koma á óvart; sýnt hefur verið fram á að menn hafa tilhneigingu til að ráða fólk til starfa sem líkist þeim sjálfum og þeir tengja við. Þannig að karl ræður gjarnan karl. Þess vegna er svo mikilvægt að fjölga konum í framkvæmdastjórnum. Hafandi sagt það þá gengur konum í stjórnunarstöðum almennt mjög vel og er treyst fyrir stærri verkefnum en áður var. Kannski er ég bara svona óþolinmóð og leið yfir því að þetta þurfi að vera enn á dagskrá.“

Hún brosir.

Spurð um álverið í Straumsvík þá segir Rannveig alla jafna ganga vel að ráða konur, hámenntaðar annars vegar og ófaglærðar hins vegar, til starfa. Öðru máli gegni um iðnmenntaðar konur enda séu þær enn þá allt of fáar. „Þess vegna fagna ég átakinu hjá Tækniskólanum og öðrum og að rafvirkjar hafi valið sér konu sem formann. Þetta telur allt og hjálpar til við að vekja athygli og áhuga á iðngreinunum.“

Hún segir mikilvægt að konur haldi sínu striki í iðngreinum; „Við erum með fáar, en mjög öflugar iðnmenntaðar konur í Straumsvík.“

Samkomulag um fyrirkomulagið

Þegar einstaklingur tekur að sér krefjandi og tímafrekt starf, líkt og það sem Rannveig gegnir, er mikilvægt að samvinna sé heima fyrir. Gildir þá einu hvort einstaklingurinn er kona eða karl. „Við hjónin ræddum þetta mjög vandlega fyrir 30 árum áður en ég þáði stjórnunarstarf í Straumsvík. Fyrir lá að starfið yrði erilsamt. Umræðuna tókum við svo aftur áður en ég þáði forstjórastarfið því ljóst var að það krefðist mikilla ferðalaga erlendis. Maðurinn minn gerði sér grein fyrir þessu og vissi frá upphafi að hann yrði að sjá um heimilið í minni fjarveru. Og öfugt. Þetta hefur aldrei verið vandamál enda gerðum við samkomulag um fyrirkomulagið áður en lagt var upp í þessa vegferð.“

Spurð hvort hún hefði þurft að gera slíkt samkomulag væri hún karlmaður svarar Rannveig: „Ég veit það ekki. Ef til vill ekki. En auðvitað ætti það að vera þannig. Ég geri mér grein fyrir því að ríkjandi viðhorf í samfélaginu er enn þá á þann veg að konur beri meiri ábyrgð á heimilinu en karlar. Sem betur fer er það þó að breytast. Í mínu tilviki hafði maðurinn minn ekki minni áhuga á því en ég sjálf að ég tæki þetta starf að mér. Það er ekki sjálfgefið að það sé alltaf þannig. En lykilatriðið er að reikna aldrei með neinu; svona lagað þarf að vera á hreinu áður en maður er kominn út í djúpu laugina. Það er vont að þurfa að hafa áhyggjur af heimilinu og öðru sem nálægt manni stendur í erli dagsins.“

Þrátt fyrir annríki í starfi hefur Rannveig alltaf gætt þess að gefa sér drjúgan tíma með fjölskyldunni. Hún er til dæmis bara í einum félagsskap sem hittist utan dagvinnutíma – og það er saumaklúbbur. „Ég tek helst ekki að mér verkefni sem kalla á viðveru utan hefðbundins vinnutíma; frítíma mínum vil ég verja með fjölskyldu og vinum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert