Sala á niðursoðnum vörum fimmfaldast

Verslun Bónuss í Kringlunni.
Verslun Bónuss í Kringlunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Salan hefur fimmfaldast að undanförnu á niðursoðnum vörum, G-mjólk, morgunkorni, hrökkbrauði og fleiri vörum með langt geymsluþol í Bónus eftir að fyrstu tíðindi bárust af kórónusmiti hérlendis.

Þetta sagði Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, í tíufréttum RÚV. Um þrjátíu þúsund sótthreinsibrúsar hafa einnig selst í Bónus frá áramótum.

Í Nettó hefur aukningin í netverslun verið um 60 prósent. Sumir viðskiptavinir hafa óskað eftir því að vörurnar verði skildar eftir fyrir utan hjá sér en hátt í 300 Íslendingar eru í sóttkví af ótta við útbreiðslu veirunnar.

Í Nettó hefur jafnmikið selst af sótthreinsibrúsum á síðustu tveimur mánuðum og síðustu tvö árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert