Þriðjungur telur verknám eiga betur við sig

Niðurstöður gefa einnig til kynna að hækkandi hlutfall nemenda af …
Niðurstöður gefa einnig til kynna að hækkandi hlutfall nemenda af báðum kynjum telji námið tilgangslaust og að strákum sé almennt hættara við þeirri upplifun en stelpum. mbl.is/Hari

Þriðjungur nemenda framhaldsskóla í bóknámi telur verknám eiga betur við sig. Á sama tíma segjast innan við 20% vera á verknámsbrautum. Þetta kemur fram í könnuninni Ungt fólk á vegum Rannsókna & greiningar sem var lögð fyrir haustið 2018. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Menntamálastofnun

Flestir nemendur telja að bóknám til stúdentsprófs lýsi námsbraut sinni best eða um 67% nemenda í heild árið 2018. Mun lægra hlutfall nemenda telur verknám til starfsréttinda (10,5%), verknám til stúdentsprófs (7,8%), listnám (7,2%) og nám á framhaldsskólabraut (3,2%) lýsa námsbraut sinni best. Þó segjast 3% fleiri nemendur stunda verknám til starfsréttinda árið 2018 en árið 2016. 

Meirihluti nemenda myndi vilja að það væri meira frjálst val á hverri námsbraut eða um 75% árið 2016 og 70% árið 2018. Hartnær tveir þriðju hlutar nemenda hafa áhuga á að taka fleiri verklega áfanga og um 40% hafa áhuga á að taka fleiri listgreinaáfanga. 

Stelpur duglegri að læra heima

Á bilinu 37-40% nemenda verja hálfri klukkustund eða minna í heimanám á dag og 28-32% um einni klukkustund á dag þegar tímabilið er skoðað. Hlutfall stelpna sem ver einni klukkustund eða meira í heimanám á dag er að jafnaði 20-30 prósentustigum hærra en hjá strákum á tímabilinu 2004-2018. Hins vegar telja strákar nám sitt að jafnaði léttara en stelpur. 

Niðurstöður gefa einnig til kynna að hækkandi hlutfall nemenda af báðum kynjum telji námið tilgangslaust og að strákum sé almennt hættara við þeirri upplifun en stelpum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert