Þrjú ný smit hafa verið staðfest

Frá blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar fyrr í dag.
Frá blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar fyrr í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sex tilfelli kórónuveirunnar COVID-19 hafa verið staðfest hér á landi. Þrjú ný smit voru staðfest í dag, að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Þar með hefur fjöldi tilfella hérlendis tvöfaldast á einum sólarhring. Þau sem greindust í dag eru tvær konur og einn karl, allt Íslendingar á sextugsaldri sem komu til landsins á laugardaginn með flugi Icelandair til Keflavíkurflugvallar frá Veróna á Ítalíu. Þau eru ekki mikið veik en með dæmigerð einkenni kórónuveiru, hósta, beinverki og hita. Sæta þau nú heimaeinangrun.

Evrópusambandið ákvað í dag að hækka viðbúnaðarstig vegna kórónuveirunnar eftir að fjöldi smita tvöfaldaðist á Ítalíu á tveimur sólarhringum, en þar eru smitin orðin fleiri en 2.000 talsins og eru 52 látnir, samkvæmt nýjustu tölum frá yfirvöldum. 

Öll Ítalía hefur nú verið skilgreind sem áhættusvæði þó að ástandið sé, enn sem komið er, verst á Norður-Ítalíu.

Sá fyrsti sem greindist útskrifaður í dag

Maðurinn sem greindist fyrstur Íslendinga með veiruna hefur verið útskrifaður af Landspítala og er nú í heimaeinangrun. Í samtali við RÚV segist hann hafa verið með væg einkenni lík hefðbundnum kvefeinkennum, lítinn sem engan hita og hafi aðeins fundið fyrir örlitlum andþyngslum á tímabili, en sjúkdómurinn getur valdið alvarlegum lungnasýkingum.

Þá hvetur hann til þess að fólk leyfi sér að ganga lengra en leiðbeiningar segja til um til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar.

Smitleiðir raktar

Smitrannsóknateymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og sóttvarnalæknis vinnur nú að því að rekja smitleiðir í tengslum við ný tilfelli.

Á síðustu tveimur dögum hefur teymið haft samband við um 115 einstaklinga. Mikill meirihluti þeirra var um borð í flugvél Icelandair sem kom frá Veróna á laugardaginn, en þá hafði einn þeirra sem greinst hafa með kórónuveiruna hérlendis verið að koma frá München í Þýskalandi.

Meirihluti þeirra farþega sem komu frá München með Icelandair á sunnudaginn hafði verið í Austurríki, en hvorki Þýskaland né Austurríki eru skilgreind hættusvæði fyrir COVID-19 og því þurfti um  30 manna hópur að fara í sóttkví eftir flugið frá München. Allir farþegarnir sem komu frá Veróna fóru hins vegar í sóttkví.

mbl.is