Handspritt uppselt í fríhöfninni

Handspritt er uppselt í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Leyfilegt er að …
Handspritt er uppselt í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Leyfilegt er að vera með spritt í handfarangri en sömu reglur gilda um spritt og vökva þegar farið er í flug. mbl.is/Eggert

Handspritt er uppselt í fríhöfninni en spritt í ferðavænum umbúðum, það er 100 ml einingum eða minna, hefur alla jafna verið fáanlegt í flugstöðinni. Ekki er ljóst hvenær von er á nýrri sendingu. 

Sömu reglur gilda um spritt og vökva þegar farið er í flug. Vökva er einungis heimilt að hafa meðferðis ef hver eining er 100 ml eða minna og má heildarmagn ekki fara yfir 1 lítra. Það er því leyfilegt að ferðast með spritt í handfarangri, en mbl.is barst í gær ábending um að svo væri ekki. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfestir í samtali við mbl.is að spritt meðhöndlist eins og annar vökvi og sé því leyfilegt í handfarangri. 

Almenn þrif í flugstöðinni aukin

Isavia hefur gripið til sérstakra ráðstafana í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar. 20 tilfelli veirunnar hafa greinst hér á landi en fjögur ný smit fengust staðfest af sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­ala í morg­un. Öll smitin má rekja til Norður-Ítalíu eða Austurríkis. 

Aukið hefur verið við almenn þrif í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og aukin þrif vegna véla sem eru að koma frá áhættusvæðum eins og t.d. frá Veróna um síðustu helgi. 

Að öðru leyti er allur viðbúnaður hjá Isavia vegna COVID-19 byggður á grundvelli leiðbeininga sóttvarnalæknis til starfsmanna á alþjóðaflugvöllum. „Áhersla hefur verið á upplýsingagjöf, á persónulegt hreinlæti, ráðleggingar um hvað gera skal ef kvefeinkenni gera vart við sig, áherslan á aðgát í umgengni við algenga snertifleti á fjölförnum stöðum og annað slíkt,“ segir Guðjón.

mbl.is