Kórónuveiran hefur stökkbreyst

Það fer eftir eðli stökkbreytingarinnar hvort fólk geti smitast af …
Það fer eftir eðli stökkbreytingarinnar hvort fólk geti smitast af báðum týpum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kórónuveiran COVID-19 hefur stökkbreyst í tvær megintegundir og virðist önnur vera mun skæðari en hin, að því er fram kemur í nýrri kínverskri rannsókn sem Telegraph hefur meðal annars fjallað um. 

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga Landspítalans, segir að samkvæmt rannsókninni hafi stökkbreytingin átt sér stað snemma í ferlinu og sé óhagstæðari hýslum, það er mannfólki, en veirunni sjálfri. 

„Rannsóknin byggir á raðgreiningu 103 veirustofna. Rannsóknin leiðir í ljós að það hafi orðið þróun þarna í tvær megintýpur sem eru kallaðar L og S og þetta byggir á því að þarna eru smávægilegar breytingar. Það virðist vera að þessi L-gerð sé algengari en S-gerðin. Sú síðarnefnda virðist hafa verið upphafsgerðin en L-gerðin virðist hafa komið snemma til skjalanna og sú virðist valda meiri veikindum.“

Már segir að það sé líklega L-gerð veirunnar sem sé að breiða úr sér núna, þótt erfitt sé að fullyrða það. 

„Miðað við þessar upplýsingar þá þykir mér líklegra að það sé þessi L-týpa sem er að ganga hérna í Evrópu. Tölfræðilega er það líklegra en mér skilst að í þessari rannsókn hafi einungis veirur sem greinst hafa í Kína verið rannsakaðar svo ég get ekki fullyrt neitt um það hvað sé fyrir utan landið.“

Hagstæð stökkbreyting fyrir veiruna

Almennt er það hagstæðara fyrir hýsla en veirur ef þær stökkbreyta sér. 

„Yfirleitt er það þannig að stökkbreytingar séu óhagstæðari fyrir veirurnar en ef þetta er rétt þá virðist það í þessu tilviki hafa verið heppilegra fyrir veirurnar, að minnsta kosti að því leytinu til að þær dreifast betur og virðast valda meiri veikindum en upphafsveiran,“ segir Már.

Spurður hvort ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af þessari nýju uppgötvun segir Már: „Ég myndi hvorki vera áhyggjufullur né glaður yfir þessu. Við munum leggjast yfir þetta í framhaldinu og spekúlera.“

Gerir þróun lyfja og bóluefna flóknari

Svo virðist vera sem stökkbreytingin hafi átt sér stað snemma í ferlinu en almennt segir Már að þegar veirur stökkbreyti sér geti það haft þau áhrif að erfiðara sé að þróa bóluefni eða lyf sem nýtist í baráttunni gegn þeim. 

„Þetta er til dæmis einn eiginleiki HIV-veirunnar, hún er alltaf að breytast. Það hefur gert nánast ómögulegt að búa til bóluefni gagnvart henni. Svo eru aðrar veirur eins og mænuveikin og mislingar sem eru það stöðugar að þó að sé ákveðinn breytileiki í þeim þá er bóluefni afar gott gegn þeim. Það gildir ekki eitthvað eitt um allar veirur.“

Spurður hvort hægt sé að smitast af báðum týpum stökkbreyttra veira almennt segir Már:

„Það fer bara eftir eðli stökkbreytingarinnar. Ef yfirborðseggjahvítusameindir á veiru breytast nægilega mikið þannig að ónæmiskerfi þeirra sem hafa fengið þessa upphaflegu veiru þekkir það ekki þá er þetta eins og nýtt mál fyrir viðkomandi ónæmiskerfi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina