Mótmæla brottvísunum til Grikklands

Íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki sent börn frá Íslandi …
Íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki sent börn frá Íslandi til Grikklands en nú hafa a.m.k. fimm fjölskyldur fengið tilkynningu um að íslensk stjórnvöld muni flytja þau til Grikklands á næstu dögum og vikum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Rauði krossinn á Íslandi mótmælir fyrirhuguðum brottvísunum barnafjölskyldna til Grikklands þar sem þær hafa alþjóðlega vernd. Íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki sent börn frá Íslandi til Grikklands en nú hafa a.m.k. fimm fjölskyldur fengið tilkynningu um að íslensk stjórnvöld muni flytja þau til Grikklands á næstu dögum og vikum.

Á sama tíma berast fregnir af hræðilegu ástandi við Miðjarðarhaf, t.a.m. drukknun ungs drengs þegar hann og fjölskylda hans fóru yfir hafið frá Tyrklandi á ótryggum báti. Þá er afar viðkvæmt ástand við landamæri Tyrklands og Grikklands þar sem fréttir herma að um 13.000 flóttamenn bíði inngöngu. Þá berast einnig fregnir af harðræði grísku lögreglunnar og annarra yfirvalda og að fólki sé meinuð innganga. Mikil ólga og andúð fólks í Grikklandi á flóttafólki er einnig áberandi í fjölmiðlum sem ætla má að fari aðeins vaxandi,“ segir í tilkynningu Rauða krossins vegna málsins.

„Á undanförnum vikum og mánuðum hafa margir umsækjendur um alþjóðlega vernd, bæði einstaklingar og barnafjölskyldur, fengið synjun um efnismeðferð frá íslenskum stjórnvöldum og ákveðið að þau skuli send aftur til Grikklands. Sú staðreynd að ekkert barn hefur, enn sem komið er, verið sent til Grikklands hefur aðeins verið vegna þess að fjölskyldurnar hafa fallið á tímafrestum og mál þeirra tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi, eða mál þeirra endurupptekið af öðrum ástæðum, en ekki vegna þess að stjórnvöld hafi ákveðið að ekki væri forsvaranlegt að senda fólk til Grikklands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert