Fjölbreyttari andlit á fjölum Þjóðleikhússins

Magnús Geir tók við starfi Þjóðleikhússtjóra um áramótin, en hann …
Magnús Geir tók við starfi Þjóðleikhússtjóra um áramótin, en hann gengdi áður starfi útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Ljósmynd/Hari

Fimm leikurum verður sagt upp föstum samningi við Þjóðleikhúsið í tengslum við nýjar skipulagsbreytingar. Nýr þjóðleikhússtjóri segir þó að þeim verði öllum boðnir annars konar samningar við leikhúsið. Hingað til hafi uppsagnir leikara gjarnan verið erfiðar og leikararnir oft aldrei komið aftur inn í leikhúsið. Vonast Magnús Geir Þórðarson til þess að nú verði breyting á.

„Leikhúsgestir eiga ekki von á því að þessir leikarar hverfi af fjölum Þjóðleikhússins,“ segir Magnús Geir í samtali við mbl.is.

Auk leikaranna fimm verður þremur starfsmönnum skrifstofu leikhússins sagt upp, en í stað þeirra verða til nýjar stöður framkvæmdastjóra Þjóðleikhússins, verkefnastjóra samskipta, markaðar og upplifunar og þjónustu- og upplifunarstjóra.

Fleiri komi að ákvörðunum

Magnús Geir segir breytingarnar til þess gerðar að skerpa á allri starfsemi leikhússins með það að leiðarljósi að gefa listrænu starfi og framtíðarsýn meiri fókus með því að aðgreina listræna starfið og rekstrarlega þætti. „Önnur breytingin er sú að það er verið að búa til þéttara teymi listrænna stjórnenda. Það sem báðar þessar breytingar hafa svo í för með sér er að fleiri koma að stefnumótun og ákvörðunum en áður.“

Hvað uppsagnir fastasamninga við leikara varðar segir Magnús Geir að Þjóðleikhúsið hafi stóran hóp fastráðinna leikara en með breytingunum gefist ráðrúm til að fjölga leikurum með styttri starfssamninga. „Það er nokkuð stór hópur fastráðinna leikara hérna og svo eru tíu með árssamning, svo þetta eru 35 manns sem hafa verið samningsbundnir til lengri tíma. Með því að losa fimm slíkar stöður skapast meiri sveigjanleiki til að sjá fleiri andlit á sviðum leikhússins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert