Óvenjulegt flug frá áhættusvæði

Flugvél Icelandair verður, líkt og vélin á þessari mynd, sótthreinsuð …
Flugvél Icelandair verður, líkt og vélin á þessari mynd, sótthreinsuð við komuna til landsins. AFP

„Þetta er óvenjulegt flug,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. Sérstökum leiðbeiningum og verkferlum embættis landlæknis og sóttvarnalæknis verður fylgt í flugi Icelandair frá Veróna þangað sem 70 Íslendingar verða sóttir á laugardag. Flugið er óvenjulegt vegna fjölda kórónuveirusmita sem hafa komið upp í grennd við Veróna á Ítalíu.

Ítalía, Kína, Suður-Kórea og Íran eru skilgreind sem áhættusvæði vegna kórónuveirunnar.

Ásdís Ýr Pétursdóttir segir að tveir flugmenn og fjórar flugfreyjur verði um borð. Flugfreyjurnar eru allar hjúkrunarfræðingar og munu eingöngu sinna öryggishlutverki um borð. Farþegar fá nesti fyrir flug og eru hvattir til að taka með sér drykki um borð en ekki verður boðið upp á almenna þjónustu eða sölu meðan á flugi stendur.

Sýni vegna kórónuveiru skoðuð.
Sýni vegna kórónuveiru skoðuð. mbl.is/Árni Sæberg

Áhafnir munu klæðast hlífðarfatnaði í varúðarskyni en þetta er sams konar búnaður og er notaður á heilbrigðisstofnunum. Þá munu allir farþegar fá afhentar grímur,“ segir Ásdís.

Við heimkomu ber farþegum að fara í heimasóttkví í 14 daga. Vegna öryggisráðstafana er ekki gert ráð fyrir því að áhöfnin þurfi að fara í sóttkví.

„Við teljum þetta vera öruggustu og ábyrgustu leiðina til að koma fólkinu heim – í einni vél þar sem ýtrustu varúðar verður gætt og starfsfólk okkar vel varið. Þessar ráðstafanir eru gerðar til að draga úr áhættu á útbreiðslu COVID-19 veirunnar og til að draga úr líkum þess að áhöfnin þurfi að fara í sóttkví við heimkomu. Það er sóttvarnalæknir sem ákvarðar sóttkví og metur hvert tilfelli fyrir sig,“ segir Ásdís.

Flugvél Icelandair verður sótthreinsuð við komuna til Keflavíkur og Isavia skipuleggur móttöku farþega í samstarfi við embætti landlæknis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Kórónuveiran

27. maí 2020 kl. 13:00
3
virk
smit
1792
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir