Hvað felur neyðarstig í sér?

Neyðarstig almannavarna hefur verið virkjað.
Neyðarstig almannavarna hefur verið virkjað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna, í samráði við sóttvarnalækni, vegna kórónuveiru, sem veldur COVID-19 sjúkdómi, eftir að tvö smit innanlands voru staðfest í dag.

Samkvæmt skilgreiningu almannavarna á neyðarstigi einkennist það af atburði sem valdið hefur slysum á fólki og/eða tjóni á mannvirkjum. Verkefni á því stigi einkennast af tafarlausum aðgerðum til lífsbjargandi aðstoðar og viðleitni til að afstýra fleiri slysum og varna frekara tjóni.


Um neyðarstig er að ræða, dæmi:

  1. Þegar viðhafa þarf tafarlaus viðbrögð vegna manna sem óttast er um.
  2. Þegar ítrekaðar tilraunir til að hafa samband við skip, loftfar eða menn hafa reynst árangurslausar og óttast er að viðkomandi sé í neyð.
  3. Þegar staðfestar upplýsingar hafa borist um að skip, loftfar eða menn séu í neyð eða yfirvofandi hættu og þarfnist tafarlausrar aðstoðar.
  4. Þegar slys eða hamfarir hafa orðið eða þegar heilbrigðisöryggi manna er ógnað svo sem vegna farsótta.

Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum hefur virkjun neyðarstigs nú ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig sem varað hefur frá 28. febrúar síðastliðnum, en ekki hefur verið lagt samkomubann. Búist er þó við því að það verði gert.

Stjórnvöld og viðbragðsaðilar hafa undanfarið unnið að miklu leyti eins og um neyðarstig væri að ræða og því hafa ýmsar ráðstafanir sem neyðarstig kveður á um þegar verið gerðar. Þar má nefna áætlanir um vöktun og farsóttagreiningu ásamt því að tryggja að sóttvarnaráðstöfunum sé beitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert