Undirbúningur Laugardalsvallar í beinni

Laugardalsvöllur undir snjó.
Laugardalsvöllur undir snjó. Skjáskot/Advania

Vefmyndavél hefur verið komið upp á Laugardalsvelli þar sem hægt verður að fylgjast með því hvernig völlurinn verður undirbúinn fyrir leik karlalandsliðs Íslands og Rúmeníu í undankeppni fyrir Evrópukeppnina í knattspyrnu sem fram fer í sumar.

Það eru Advania og KSÍ sem standa fyrir útsendingunni, en þar má fylgjast með því hvernig snæviþakinn völlurinn verður gerður leikhæfur á næstu þremur vikum.

Áratugir eru síðan síðast var spilaður landsleikur á Laugardalsvelli á þessum árstíma en vegna leikjafyrirkomulags UEFA verður það gert í ár. 

Í tilkynningu frá Advania segir að gríðarlegt átak þurfi til að gera völlinn leikhæfan, því eins og staðan er í dag er hann þakinn snjó. Í dag, föstudag, var sérpantað hitatjald frá Bretlandi sett yfir völlinn allan til að losa um frost og kulda í grasinu. Á næstu þremur vikum verður dúkurinn svo fjarlægður nokkrum sinnum svo hægt sé að valta, mála og mögulega slá grasið. Dúkurinn verður á vellinum allt fram til dagsins fyrir leik.

„Grasið er í dvala og þótt við séum að hita það upp þá fer það auðvitað ekki að spretta eins og um sumar. Aðgerðir okkar snúast fyrst og fremst um að gera leikflötinn eins góðan og hægt er svo hann sé öruggur fyrir leikinn. Þetta er auðvitað mjög óvenjulegt ástand og við höfum fengið til liðs við okkur mikla grassérfræðinga frá Bretlandi sem vakta völlinn allan sólarhringinn fram að leik,“ er haft eftir Óskari Erni Guðbrandssyni á samskiptasviði KSÍ.

Bresku grassérfræðingarnir munu bókstaflega búa á Laugardalsvelli þar til leikurinn við Rúmeníu fer fram en komið hefur verið upp svefnaðstöðu fyrir þá undir stúkunni. Það er ljóst að verulega frumlegar leiðir verða farnar til að koma vellinum í gott horf enda þykir frekar fáheyrt í öðrum UEFA-löndum að þjóðarleikvangar séu ekki með upphitaða grasvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert