Dreifa áhættunni með leigurými

Fyrirtæki leita í leigurými vegna kórónuveirunnar.
Fyrirtæki leita í leigurými vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á síðustu dögum hafa fjögur fyrirtæki gert samninga við Regus um að koma upp skrifstofuaðstöðu til bráðabirgða til þess að forðast röskun á starfsemi vegna kórónuveirunnar, að sögn Tómasar Hilmars Ragnarssonar, framkvæmdastjóra Regus. Hann segir að meðal fyrirtækjanna sem þegar hafa gert samning sé fjármálafyrirtæki og fyrirtæki í ferðaþjónustu.

„Við erum með aðila sem eru að leita leiða til þess að dreifa áhættunni og vera á tveimur stöðum,“ segir Tómas Hilmar, sem útskýrir að fyrirtækin vilji hafa möguleika á því að halda úti starfsemi ef smit skyldi greinast. Þannig gætu þau haldið áfram starfsemi á einum stað þótt annar yrði settur í sóttkví. „Við erum að setja upp bráðabirgðaskrifstofu þannig að starfsemin lamist ekki. Þá eru tveir hópar starfsfólks, annar í fyrirtækinu en hinn á fleiri stöðum. [...] Svo skipta þeir líka upp vöktum þannig að vaktir eru á sitt hvorum staðnum.“

Spurður í Morgunblaðinu í dag hvort þetta séu stór fyrirtæki sem hafa leitað til Regus vegna kórónuveirunnar svarar hann að um sé að ræða fyrirtæki sem þurfi að halda uppi starfsemi allan sólarhringinn. „Þetta eru meðal annars fjármála- og ferðaþjónustufyrirtæki.“

Tómas Hilmar kveðst sannfærður um að fleiri fyrirtæki leiti til Regus á næstu dögum enda séu þegar fleiri að skoða þennan kost en þau sem gengið hafa til samninga við félagið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert