Kórónuveiran leikur skemmtikrafta grátt

Hljómsveitin Bandmenn.
Hljómsveitin Bandmenn. Ljósmynd/Aðsend

Ýmis fyrirtæki og stofnanir hafa þurft að aflýsa eða fresta árshátíðum vegna kórónuveirunnar sem veldur öndunarfærasjúkdómnum COVID-19. Tala smitaðra hérlendis er nú komin upp í 50. 

Hörður Bjarkason, söngvari í hljómsveitinni Bandmönnum, segir nokkuð hafa verið um afbókanir á síðustu dögum. Marsmánuður sé ætíð stór mánuður hjá tónlistarmönnum þar sem mikið sé um árshátíðir og álíka viðburði. 

„Enn sem komið er áttum við að vera með böll í gær og í kvöld og þeim var báðum aflýst. Fyrirtæki vilja bara búa í haginn og reyna að koma í veg fyrir fleiri smit ef það er hægt,“ segir Hörður í samtali við mbl.is. 

„Við erum bókaðir allar helgar í mars og við auðvitað virðum allar svona ákvarðanir. Þetta eru bara erfiðar aðstæður sem við erum í, bæði fyrir fyrirtækin sjálf og okkur sem skemmtikrafta, en við berum náttúrlega virðingu fyrir þessum ákvörðunum.

Þetta er erfitt þar sem við fáum fullt af beiðnum sem við þurfum að segja nei við. Fyrir þessa helgi þurftum við að segja nei við viðburðum af því að við vorum bókaðir á þessa tvo viðburði sem var hætt við,“ segir Hörður. 

Heilsa fólks það sem mestu máli skiptir 

Hann segir þó ekki annað hægt en að gera gott úr þeim aðstæðum sem uppi eru. 

„Við bara höldum í vonina og okkar helsta ósk er auðvitað að sem fæstir smitist til viðbótar og þetta breiðist ekki frekar út. Við tökum þetta bara á kassann og ætlum til dæmis að taka bara æfingu og gera gott úr þessu í kvöld.“

Hörður segist sjá fram á talsverðan tekjumissi fyrir hljómsveitina ef fleiri árshátíðum verður aflýst vegna veirunnar. 

„Það er svona kannski súrasti parturinn við þetta allt saman. Þetta eru kannski tekjur sem maður er búinn að gera ráð fyrir en við að sjálfsögðu sýnum þessu skilning. Þetta eru óviðráðanlegar aðstæður og lítið við þessu að gera annað en að virða bara þessar ákvarðanir. Vilji okkar er bara að heilsa fólks í landinu sé í fyrirrúmi.“

Hörður segir óvíst hvernig næstu helgar fari, það er hvort þeim viðburðum sem Bandmenn eru bókaðir á verði aflýst. 

„Við vitum með þessa helgi en svo eru næstu helgar bara í lausu lofti. Stjórnvöld eru náttúrlega að funda á hverjum degi og taka stöðuna og það sama á væntanlega við um fyrirtækin. Fólk vill ekki taka sénsa, skiljanlega,“ segir Hörður. 

„Þó að þetta sé auðvitað leiðinlegt og við að tapa tekjum er heilsa fólks það mikilvæga. Við gerum bara gott úr þessu.“

mbl.is

Kórónuveiran

30. mars 2020 kl. 14:16
1086
hafa
smitast
157
hafa
náð sér
30
liggja á
spítala
2
eru
látnir