Síðustu forvöð fyrir verkfall

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjaraviðræður sjúkraliðafélags Íslands, Sameykis og BSRB við ríki, sveitarfélög og Reykjavíkurborg hófust að nýju skömmu eftir klukkan 10 í morgun. 

Samninganefnd sjúkraliðafélag Íslands vinnur að samningum við alla þrjá launagreiðendurna, Sameyki á í viðræðum við ríki og sveitarfélög og BSRB, sem er með umboð frá öllum félögum sínum, ræðir sameiginlega við alla launagreiðendurna þrjá. 

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sagðist í samtali við mbl.is skömmu fyrir fundinn vera hóflega bjartsýn á viðræður dagsins. 

„Við í BSRB lögðum í gær mikla áherslu á niðurstöðu í umræðu um jöfnun launa á milli markaða. Það komst býsna langt svo ég vonast til þess að við náum að klára það,“ segir Sonja. 

„Af stærstu málum sem eftir eru hjá aðildarfélögunum eru launin og svo önnur smærri mál sem hanga þarna við líka. Það er svolítið bil á milli samningsaðilanna varðandi launalínur og þessi mál á borði aðildarfélaganna. Þá eru örfá mál eftir á borði BSRB. Þetta gæti gengið vel og þetta gæti gengið hægt,“ segir Sonja og bætir við að koma verði í ljós hvort árangur náist. 

„Það vilja allir vinna vel að því að reyna að klára þetta og þá sérstaklega með það fyrir sjónum að það sé að skella á verkfall á mánudagsmorgun. Ég er svona hæfilega bjartsýn og vona að sjálfsögðu að þetta gangi vel í dag.“

Sýnir hve ómissandi fólk er

Undanþágunefndir aðildarfélaga BSRB ákváðu í gær að veita Landspítalanum og heilsugæslustöðvum tímabundna undanþágu frá verkfalli sem boðað hefur verið á mánudag og þriðjudag eftir að hættuástandi var lýst yfir vegna kórónuveirunnar.

Sonja segir félögin taka ábyrga afstöðu, enda ekki ætlunin að valda almenningi hættu með aðgerðunum. „Þetta sýnir þó svart á hvítu hversu ómissandi okkar fólk er í almannaþjónustunni að heilu stofnanirnar eru ekki starfhæfar án þeirra. Það má svo skoða í því samhengi að opinberir vinnuveitendur hafa nú dregið það í nærri ár að gera kjarasamning við þetta ómissandi fólk. Var þá bara allt í lagi að hafa þessa stóru hópa sem halda uppi almannaþjónustunni án kjarasamnings í allan þennan tíma? Án kjarabóta sem aðrir hafa löngu fengið? Það eru augljóslega fráleit vinnubrögð og vanvirðing við starfsfólk sem þessar stofnanir geta ekki verið án,“ er haft eftir Sonju í frétt sem birtist á vef BSRB.

„Það fylgir því gríðarleg ábyrgð að reka almannaþjónustuna. Okkar fólk er mjög meðvitað um mikilvægi sinna starfa. Nú þurfa ríkið og sveitarfélög að sýna að þau skilji það líka og ganga til kjarasamninga strax. Við höfum enn tíma til stefnu áður en verkfallsaðgerðir skella á. Okkar viðsemjendur hafa það í hendi sér að afstýra verkföllum með því að ljúka gerð kjarasamnings nú um helgina,“ segir Sonja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert