Tala smitaðra komin í 50

Alls eru 50 smitaðir hér á landi.
Alls eru 50 smitaðir hér á landi. mbl.is/Hallur Már

Í dag hafa greinst fimm ný smit. Þrjú þeirra eru innlend og má rekja þau til einstaklinga sem voru á hættusvæðum erlendis. Hinir tveir sýktust erlendis. Tveir þeirra eru á þrítugsaldri, einn á fertugsaldri, einn á fimmtugsaldri og einn á áttræðisaldri.

Allir búa á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi smitaðra er því orðinn 50 talsins, þar af eru sjö innanlandssmit.

42 sýni greind í dag

Nú hafa samtals hafa 484 sýni verið greind þar af 42 í dag. Á fjórða hundrað einstaklinga voru í sóttkví á hádegi í dag. Í sóttvarnarhúsi á Rauðarárstíg dvelja tveir erlendir ríkisborgarar. Sýni var tekið úr öðrum þeirra í dag og reyndist það neikvætt. Hinn einstaklingurinn sýnir engin einkenni COVID-19 sjúkdómsins.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag kom fram að aðgerðir sem nú eru að fara í gang vegna kór­ónu­veiru væru að beina sjón­um að viðkvæm­ustu hóp­un­um í þeim til­gangi að koma í veg fyr­ir að þeir smit­ist.

Ríkislögreglustjóri lýsti í gær yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveiru (COVID-19) eftir að fyrstu smit innanlands voru staðfest. Ekki hefur verið lagt á samkomubann.

Leiðbeiningar Embættis landlæknis fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri sýkingu COVID-19 er hægt að nálgast á vef landlæknis.

Fréttin var uppfærð klukkan 16:55

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert