„Trúum því að þetta bæti tilveru félagsmanna“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hari

Kjarasamningar Eflingar og ríkisins hafa verið undirritaðir. Samninganefndir höfðu fundað frá klukkan þrjú í dag, þar til samningar náðust á sjöunda tímanum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist ánægð með að samið hafi verið, þótt hún hafi áttað sig á því, eftir að hún tók við formennsku í félaginu, að sér þætti alltaf erfitt að undirrita samninga.

Samningurinn, sem gildir út mars 2023, tekur til 540 félagsmanna Eflingar, sem flestir vinna á Landspítala við umönnun, þrif, þvotta og í mötuneytum. Sólveig segir samninginn byggjast á lífskjarasamningunum, sem undirritaðir voru í fyrravor, og felur því í sér taxtahækkanir og styttingu vinnuviku. Jafnframt fylgja honum viðbótaraðgerðir sem eiga að bæta sérstaklega kjör lægst launuðu hópanna, að því er segir í tilkynningu frá Eflingu.

Helga Jónsdóttir, settur ríkissáttasemjari, og Elísabet S. Ólafsdóttir aðstoðarsáttasemjari ásamt …
Helga Jónsdóttir, settur ríkissáttasemjari, og Elísabet S. Ólafsdóttir aðstoðarsáttasemjari ásamt samninganefndum Eflingar og ríkisins. Ljósmynd/Aðsend

Lægstu hópar færast til í launatöflu

Um áramót tekur gildi ný launatafla á Landspítalanum og upptöku hennar fylgir viðbótarfjármagn frá ríkinu. „Þá kemur það í okkar hlut að raða [störfum] inn í þessa nýju launatöflu. Við munum nýta þetta fjármagn til að tryggja að lægst launaða fólkið fái umframhækkun,“ segir Sólveig og bætir við að hér sjái félagið tækifæri til að framkvæma þá leiðréttingu sem félagið hafi kallað eftir.

Stytting vinnuvikunnar sem kveðið er á um í samningnum er æði misjöfn eftir hópum. Dagvinnuhópar fá styttingu upp á 13 mínútur á dag, en hjá hópum sem vinna vaktavinnu getur vinnutími styst í allt að 32 klukkustundir á viku, í samræmi við samkomulag vaktavinnuhóps BSRB, ríkisins og sveitarfélaga.

„Félagsmenn okkar vinna líkamlega erfiða vinnu og svo bætist ofan á að vaktavinnan er slítandi. Við trúum því að þetta bæti tilveru félagsmanna okkar og vinnuskilyrði,“ segir Sólveig.

mbl.is

Bloggað um fréttina