1,5 milljarðar til innviða á ferðamannastöðum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra gerðu í dag grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2020. Samtals er nú 1,5 milljörðum króna úthlutað úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að frá síðustu úthlutun hafi mikill árangur náðst í að auka og bæta innviði um land allt og þannig getu þeirra svæða sem um ræðir til að taka við ferðamönnum. 

Gert er ráð fyrir um þriggja milljarða framlagi til þriggja ára frá 2020 til 2022. Meðal þess sem gert hefur verið frá síðustu úthlutun er áframhaldandi uppbygging gönguleiða, útsýnispalla og bílastæða innan Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, viðgerðir á hleðslum við Snorralaug í Reykholti og smíði á stigum og pöllum við Stuðlagil, sem og við Hornbjargsvita til að bæta öryggi ferðamanna og vernda náttúru auk fjölda annarra verkefna.

Alls hafa 119 ferðamannastaðir, ferðamannaleiðir og ferðamannasvæði verið skilgreind þar sem verkefni hafa þegar verið hafin fyrir tilstuðlan landsáætlunar um uppbyggingu innviða eða eru fyrirhugaðar til og með árinu 2022.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir styrki til 33 verkefna um allt land árið 2020 sem nema samtals 501,5 milljónum króna. Hæstu styrkirnir að þessu sinni eru styrkir til byggingar útsýnispalls á Bolafjalli í Bolungarvíkurkaupstað, áframhald uppbyggingar við Stuðlagil beggja vegna árinnar og bætt fráveitumál í Hrafntinnuskeri. Önnur verkefni sem fá hærra en 15 milljóna króna styrki eru bætt salernisaðstaða við Aldeyjarfoss og bygging skýla til náttúruskoðunar við fuglastíg á Norðausturlandi.

Tilkynning Stjórnarráðsins

mbl.is