Aukin dagskrá og leikfimi á RÚV

„Auðvitað er mikilvægt að sinna þessum verkefnum eins og öðrum …
„Auðvitað er mikilvægt að sinna þessum verkefnum eins og öðrum sem þessu tengjast, og Ríkisútvarpið er svo sannarlega tilbúið í það stóra verkefni, enda er það okkar hlutverk.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisútvarpið vinnur nú að því að koma til móts við almannavarnir og almenning varðandi afþreyingarefni fyrir fólk sem sætir sóttkví vegna kórónuveirunnar. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir í samtali við mbl.is að m.a. sé í skoðun að setja í sýningu blöndu af nýju og gömlu leikfimiefni.

„Samhliða því að tryggja öruggan rekstur hjá okkur erum við að sinna því verkefni okkar að miðla fræðslu, upplýsingum og skemmtiefni til almennings,“ segir Stefán.

„Þetta er allt saman í fullum gangi og í skoðun, það eru fjölmargir sem eru heima í sóttkví auk þess sem það eru ýmsar takmarkanir í gildi á hjúkrunarheimilum, sjúkrahúsum og víðar. Við höfum tekið afar vel í þessar óskir sem við höfum fengið frá almannavarnayfirvöldum og auðvitað ábendingar frá almenningi sem við hlustum á.“

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. mbl.is/Styrmir Kári

Stefán segir þetta allt þurfa að vera í góðu horfi, ekki síst ef þarf að fara í frekari aðgerðir vegna kórónuveirunnar.

Meðal þess sem verið er að skoða er að auka dagskrá Ríkisútvarpsins yfir daginn. „Það er verið að skoða hvað er hægt að gera og hvaða efni við eigum sem við getum komið hratt og örugglega til fólks. Svo eru atriði eins og landlæknir hefur bent á, og sendi mér skilaboð um, að nú eru mjög margir sem hefðu annars verið að fara í leikfimi og sjúkraþjálfun bundnir heima hjá sér eða inni á stofnunum, og þá getur Ríkisútvarpið auðvitað komið sterkt inn og aukið við leikfimi og gert hana aðgengilegri. Það er verið að skoða það sérstaklega.“

Aðspurður hvort standi til að endursýna eldra efni eða búa til nýtt segir Stefán allt koma til greina. „Við ætlum að sjá hversu hratt og örugglega við getum brugðist við þessu, og það verður örugglega einhvers konar blanda af gömlu efni og mögulega einhverju nýju.“

„Auðvitað er mikilvægt að sinna þessum verkefnum eins og öðrum sem þessu tengjast, og Ríkisútvarpið er svo sannarlega tilbúið í það stóra verkefni, enda er það okkar hlutverk.“

mbl.is

Kórónuveiran

9. apríl 2020 kl. 13:10
1648
hafa
smitast
688
hafa
náð sér
11
liggja á
spítala
6
eru
látnir