„Fyrirlitleg vinnubrögð“

Ingibjörg Sverrisdóttir.
Ingibjörg Sverrisdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef aldrei lagt í vana minn að upphefja sjálfa mig með því að tala niður til annarra.“ Þetta segir Ingibjörg Sverrisdóttir, frambjóðandi til formanns Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, í yfirlýsingu vegna ummæla Hauks Arnþórssonar, mótframbjóðanda hennar, sem birtust í Morgunblaðinu í dag.

Segir Ingibjörg að benda beri á þær staðreyndavillur sem Haukur hafi borið á borð í viðtali sínu.

„Þar lætur hinn ágæti Haukur hafa eftir sér að hann færist sjálfkrafa í framboð til stjórnar FEB nái hann ekki kjöri sem formaður. Þetta er rangt! Hið rétta er að ágætur Haukur skilaði bæði inn framboði til formanns og stjórnar. Með því er Haukur að baktryggja sína aðkomu að félaginu,“ skrifar Ingibjörg.

„Þá lætur hinn ágæti Haukur að því liggja að ég haldi á einhvers konar valdasprota innan Sjálfstæðisflokksins. Þetta er bara alrangt og ekki svaravert,“ bætir hún við og bendir á að „ég stend ein að mínu framboði á meðan Haukur kemur með fimm manns úr Sósíalistaflokki Íslands sér til fulltingis í framboð til stjórnar. Og það úr einum stjórnarmálaflokki, Sósíalistaflokki Íslands. Talandi um samtryggingu!“

Markmiðið að berjast fyrir réttindum eldri borgara

„Það eru fyrirlitleg vinnubrögð hjá Hauki að tala með þessum hætti um mótframbjóðendur sína og ekkert annað að gera en að dusta þetta tal Hauks af sér eins og ryk.

Mitt markmið er einfalt, það er að berjast fyrir réttindum eldri borgara af alefli eins og ég hef gert, hér eftir sem hingað til. Rétt eins og ég gerði á yngri árum, þegar ég tók þátt verkalýðsbaráttu og sat í samninganefndum um kaup og kjör, þar sem ég þótti svo hörð að ég fékk viðurnefnið „litla ljónið“.

Látum verkin tala, það mun ég gera!“

mbl.is

Bloggað um fréttina