Mælikvarði á árangur er ekki fjöldi smitaðra

Sóttvarnargámur við Landspítala.
Sóttvarnargámur við Landspítala. Ljósmynd/Íris Jóhannsdóttir

„Það er ómögulegt að segja til um það og ég ætla ekki að hætta mér út í það að nefna neinar tölur í því sambandi. Það er algjörlega óvitað og nánast vonlaust,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir spurður að því hvort hægt sé að áætla mögulegan fjölda kórónuveirusmita sem muni greinast hér á landi á næstu vikum.

Það sé meðal annars vegna þess að hvert smit geti haft ákveðin margföldunaráhrif.

„En við vitum að þessi veira er mjög smitandi þannig að þessar samfélagslegu aðgerðir sem einstaklingar eru að grípa til með því að minnka samgang og bæta hreinlætisaðgerðir skipta í raun meginmáli í því hvort útbreiðslan verður mikil eða lítil,“ bætir hann við.

Hann tekur fram að mælikvarðinn á árangur í baráttunni við kórónuveiruna, sem veldur sjúkdómnum COVID-19, sé ekki heildarfjöldi smita sem greinist í samfélaginu heldur hversu margir viðkvæmir hópar og einstaklingar fái sýkinguna og veikist alvarlega.

„Hluti af óvissunni er hversu margir fá mjög væga sýkingu með vægum einkennum og greinast því aldrei. Við erum að horfa til þess hversu margir munu veikjast alvarlega af þessari veiru því það er það sem við erum að reyna að koma í veg fyrir með því að beita sóttkví og einangrun og hvetja til samfélagslegra aðgerða,“ útskýrir Þórólfur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert