„Tímamótasamningur“ Sameykis og borgar

Samningur Sameykis og Reykjavíkurborgar var undirritaður um klukkan þrjú í …
Samningur Sameykis og Reykjavíkurborgar var undirritaður um klukkan þrjú í nótt. mbl.is/Þórunn Kristjánsdóttir

Sameyki samdi við Reykjavíkurborg og var samningur undirritaður um klukkan þrjú í nótt. Samningurinn er sambærilegur og sá sem bæj­ar­starfs­manna­fé­lög inn­an BSRB gerðu við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um miðnætti. Þetta tekur til um 4.000 félagsmanna. 

„Hann er að mörgu leyti tímamótasamningur,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis, við mbl.is í Karphúsinu. Stytting vinnuvikunnar er stærsti áfanginn, bæði hjá dagvinnu- og vaktavinnufólki. Hann segir helstu áskorunina hafa verið að umbreyta vaktavinnufyrirkomulaginu eins og það hefur verið á Íslandi „það var mikil áskorun,“ segir Árni. 

„Við teljum þetta vera mjög ásættanlegan og góðan samning,“ segir Árni. Spurður hvort meiri þrýstingur sé að landa samningum vegna kórónuveirunnar segist hann ekki geta neitað því. 

„Við sáum fram á það að það væri best að klára þetta. Það er orðið erfitt að reka kjarabaráttu og fara í verkfall ef það er ekki hægt að halda baráttufundi,“ segir hann og vísar til þess að ákveðið var að blása af baráttufund BSRB og aðildarfélaga þeirra sem átti að fara fram í dag, mánudag. 

Spurður hvort félagið hafi þurft að gefa eftir af kröfum sínum viðurkennir hann það. „Við gerðum fleiri málamiðlanir en við ætluðum okkur að gera. Það er algjörlega miðað við þær aðstæður sem voru komnar upp.“

Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis stéttarfélags.
Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis stéttarfélags. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert