Vill eina lögreglu með sameiginlega stjórn

Óeining um valdmörk og yfirstjórnunarhlutverk Ríkislögreglustjóra hefur á undanförnum árum leitt til þess að lögreglustjórar hafa í auknum mæli leitað beint til dómsmálaráðuneytis vegna ýmissa mála í stað Ríkislögreglustjóra. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í úttekt Ríkisendurskoðunar á embætti Ríkislögreglustjóra sem birt var í dag. 

Ríkisendurskoðandi telur að endurskoða þurfi lögreglulög og skýra hlutverk Ríkislögreglustjóra en í skýrslunni kemur sömuleiðis fram að vænlegast sé að á Íslandi verði í framtíðinni ein lögregla sem starfi undir sameiginlegri stjórn óháð fjölda umdæma eða fyrirkomulagi einstakra verkefna innan skipulagsins, hvort sem þau eru unnin á landsvísu eða í nær­um­hverfinu. 

Athugun Ríkisendurskoðunar leiddi einnig í ljós að það hefði tekið embætti Ríkislögreglustjóra rúm fjögur ár að koma útboðsmálum vegna fatnaðar lögreglu í við­unandi horf en þjónustuhlutverk Ríkislögreglustjóra hefur sætt gagnrýni innan lögreglunnar, sérstaklega sameiginleg þjónusta Ríkislögreglustjóra í tengslum við rekstur bílamiðstöðvar og kaup á búnaði og fatnaði lögreglumanna. 

Í fyrra áttu sér stað deilur innan lögreglunnar sem tengdust Ríkislögreglustjóra með beinum hætti. Deilunum lauk með því að Haraldur Johannessen, þáverandi ríkislögreglustjóri, lét af störfum um síðustu áramót. Haraldur hafði sjálfur kallað eftir því að yfirbygging lögreglunnar yrði einfölduð og það hefur Sig­ríður Björk Guðjóns­dótt­ir, lög­reglu­stjóri á höfuðborg­ar­svæðinu, einnig gert.

„Draga þarf lærdóm af rekstri bílamiðstöðvar Ríkislögreglustjóra og koma á fót ásættanlegu kerfi í tengslum við ökutæki lögreglu. Gera þarf raunhæfar áætlanir um hvernig ná megi því markmiði að lögreglan hafi yfir að búa öflugum ökutækjakosti og að endurnýjun hans sé með reglubundnum hætti,“ segir í samantekt um úttekt Ríkisendurskoðunar.

Skortur á samstarfi og upplýsingaflæði

Fyrrnefnda óeiningu um valdmörk og yfirstjórnunarhlutverk Ríkislögreglustjóra má að verulegu leyti rekja til skorts á samstarfi, samráði og upplýsinga­flæði innan lögreglunnar, að mati Ríkisendurskoðunar. 

Hún tók ákvörðun um að ráðast í úttekt á Ríkislögreglustjóra í kjölfar þess að embætti hans óskaði eftir athugun Ríkisendurskoðunar á rekstri bílamiðstöðvar Ríkislögreglustjóra. „Leitað var eftir afstöðu dómsmálaráðuneytis og í kjölfarið ákvað Ríkisendurskoðandi að gera skyldi stjórnsýsluúttekt á embætti Ríkislögreglustjóra í heild sinni,“ segir í samantekt um úttektina.

„Þá kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að í gegnum árin hafi embætti Ríkislögreglustjóra verið falin ýmis ábyrgðarhlutverk innan löggæslunnar, s.s. rekstur sérsveitar, almannavarnadeildar, alþjóðadeildar, landamæradeildar, greiningardeildar, stoðdeildar og fleiri eininga. Um er að ræða verkefni sem mikilvægt er að sé sinnt á landsvísu. Almennt hafi ríkt góð sátt um þessi verkefni Ríkislögreglustjóra og eru þau m.a. til marks um þá eflingu og framþróun löggæslunnar sem átt hefur sér stað frá því embætti Ríkislögreglustjóra var komið á fót, jafnt vegna innri sem ytri áhrifavalda. Faglegt löggæslustarf innan embættis Ríkislögreglustjóra hefur þannig verið öflugt þrátt fyrir togstreitu um yfirstjórn lögreglu á síðustu árum,“ segir sömuleiðis í samantektinni. 

Nýtt lögregluráð tók til starfa 1. janúar síðastliðinn en markmið með því er að auka samvinnu og samráð innan löggæslunnar. Auglýst hefur verið eftir nýjum ríkislögreglustjóra en Kjart­an Þorkels­son sinnir starfinu nú tímabundið en Kjartan hefur kallað eftir meira samráði sem styrki löggæsluna í landinu.

mbl.is