Brottvísun fjölskyldu til Grikklands frestað

Sema hefur fjallað um mál sex manna fjölskyldu frá Írak …
Sema hefur fjallað um mál sex manna fjölskyldu frá Írak sem til stóð að vísa til Grikklands, en börnin eru á aldrinum eins til níu ára og foreldrarnir fæddir árin 1995 og 1993. Af Facebook-síðu Semu

Brottvísun flóttafjölskyldu til Grikklands hefur verið frestað vegna þess að ekki liggur fyrir samþykki frá réttu stjórnvaldi í Grikklandi, en samkvæmt Útlendingastofnun hefur boðleiðum fyrir endursendingarbeiðnir í grísku stjórnsýslunni verið breytt.

Sema Erla Serdar greinir frá því á Facebook að grísk stjórnvöld hafi neitað að taka við fjölskyldunni vegna aðstæðna á Grikklandi. „Það þurfti sem sagt grísk stjórnvöld til þess að stöðva ómannúðlega og grimmilega meðferð íslenskra yfirvalda á börnum á flótta,“ skrifar Sema.

Sema hefur fjallað um mál sex manna fjölskyldu frá Írak sem til stóð að vísa til Grikklands, en börnin eru á aldrinum eins til níu ára og foreldrarnir fæddir árin 1995 og 1993. 

Íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki vísað barnafjölskyldum aftur til Grikklands, en samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum á Íslandi stóð til að vísa a.m.k. fimm fjölskyldum þangað.

Sema segir að börnin séu óhult í bili og að hún neiti að trúa því að þeim verði tilkynnt  brottvísun í þriðja skiptið.

Við þurfum öll að halda áfram að fylgjast mjög vel með stöðu mála og passa upp á að íslensk yfirvöld reyni ekki að framkvæma forkastanlegar aðgerðir eins og þá sem stóð til að gera í þessu tilfelli í skjóli nætur!“

Endursendingarbeiðni þegar verið send þar til bæru stjórnvaldi

Í yfirlýsingu frá Útlendingastofnun vegna málsins segir ekki rétt að grísk stjórnvöld hafi hafnað því að taka aftur við einstaklingum sem hafa fengið alþjóðleg vernd í Grikklandi vegna aðstæðna þar í landi.

„Stoðdeild ríkislögreglustjóra undirbýr nú ferð til Grikklands með fjölskyldu og einstakling, sem var synjað um efnislega meðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi vegna þess að þau njóta nú þegar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi.“

 „Ferðin var á áætlun í þessari viku en hlutaðeigandi hefur verið tilkynnt að hún muni frestast. Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild er ástæðan sú að boðleiðum fyrir endursendingarbeiðnir í grísku stjórnsýslunni hefur verið breytt og því liggur ekki fyrir samþykki frá réttu stjórnvaldi. Endursendingarbeiðni hefur nú þegar verið send þar til bæru stjórnvaldi til afgreiðslu.“

Fréttin var uppfærð í kjölfar þess að fréttastofu barst yfirlýsing frá Útlendingastofnun.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert