Hagstjórnarviðbrögðin jákvæð

Samtök iðnaðarins eru ánægð með viðbrögð ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands.
Samtök iðnaðarins eru ánægð með viðbrögð ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands. mbl.is/Hanna

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans eru jákvæðar og til þess fallnar að hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við samdrátt og milda höggið. Aðgerðirnar eru tímabærar og leitast er við að þær hafi skjótvirk áhrif. Þetta er mat Samtaka iðnaðarins.

Tilgreint er að vandinn sé tvíþættur. „Annars vegar almennur en kólnun hagkerfisins er staðreynd og birtist meðal annars í auknu atvinnuleysi, minni útflutningi og samdrætti í landsframleiðslu á mann á þessu ári. Hins vegar sértækur en dreifing COVID-19-veirunnar hefur áhrif á alla heimsbyggðina og er Ísland ekki undanskilið,“ segir í tilkynningu. 

Aðgerðirnar eru í fjórum liðum og eru eftirfarandi: 

1. Mótvægisaðgerðir vegna COVID-19 sem voru kynntar í gær.

2. Vaxtalækkun Seðlabankans og breytingar á bindiskyldu sem var kynnt í morgun.

3. Innspýting í hagkerfið upp á 20-25 milljarða á ári næstu þrjú árin til viðbótar við fyrri áform til að koma í veg fyrir frekari kólnun hagkerfisins. Verður kynnt í næstu viku.

4. Frekari aðgerðir Seðlabankans til að hleypa súrefni til fyrirtækja, meðal annars endurskoðun á eiginfjáraukum bankanna. Aðgerðir hafa verið boðaðar í þessum mánuði.

Hér er tilkynningin í heild sinni um Tímabær og jálvæð hagstjórnarviðbrögð á vef Samtaka iðnaðarins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina