Hleypur 60 hringi í kringum Tjörnina

Nirbhasa undirbýr sig fyrir sína fjórðu þátttöku í lengsta götuhlaupi …
Nirbhasa undirbýr sig fyrir sína fjórðu þátttöku í lengsta götuhlaupi heims á 41 árs afmælisdaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nirbhasa Magee ver afmælisdeginum öðruvísi en flestir, en í dag, 11. mars, ætlar hann að hlaupa 60 hringi í kringum Reykjavíkurtjörn í tilefni dagsins.

Nirbhasa er nefnilega að undirbúa sig fyrir sína fjórðu þátttöku í lengsta götuhlaupi heims, 4.989 kílómetra löngu hlaupi í New York sem hefst í júní. Nirbhasa er Íri sem búsettur hefur verið á Íslandi síðan 2013 og ákvað hann að hlaupa 60 hringi í kringum Reykjavíkurtjörn vegna þess að hringurinn í kringum báðar tjarnirnar er næstum nákvæmlega míla og eru 60 mílur sú vegalengd sem miðað er við að hlaupin sé daglega í lengsta götuhlaupi heims.

mbl.is sló á þráðinn til Nirbhasa skömmu fyrir hádegi, en þá hafði hann verið á hlaupum í um fimm klukkustundir og hafði hlaupið u.þ.b. sem nemur einu maraþoni eða 41 kílómetra.

„Þetta er Ísland“

„Það er svolítið mikill vindur hérna og ég er að hlaupa á móti vindinum og það er ekki skemmtilegt,“ segir Nirbhasa sem talar góða íslensku. Að öðru leyti segir hann aðstæður ágætar, nema klaki og snjór geri þetta að eins konar hindranahlaupi. „Þetta er Ísland.“

mbl.is sló á þráðinn til Nirbhasa skömmu fyrir hádegi, en …
mbl.is sló á þráðinn til Nirbhasa skömmu fyrir hádegi, en þá hafði hann verið á hlaupum í um fimm klukkustundir og hafði hlaupið u.þ.b. sem nemur einu maraþoni eða 41 kílómetra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nirbhasa er í hugleiðsluhópnum Sri Chinmoy, en þetta 3.100 mílna langa götuhlaup er skipulagt og haldið af hópnum. Keppendur hafa 52 daga til þess að hlaupa vegalengdina og hlaupa frá klukkan sex á morgnana til miðnættis. 

Nirbhasa segir að þegar hann hafi fyrst heyrt af hlaupinu hefði honum þótt það magnað en hugsað að þetta væri ekki eitthvað sem hann gæti nokkurn tíma hugsað sér að gera, þrátt fyrir að hafa hlaupið nokkur maraþon. Hann tók hins vegar þátt í últramaraþoni árið 2013 og hljóp þúsund kílómetra á tíu dögum og tók svo fyrst þátt í þessu lengsta götuhlaupi heims árið 2015. Hann hljóp það aftur árið 2017 og svo 2019, en nú er í fyrsta sinn sem Nirbhasa lætur líða minna en tvö ár á milli hlaupa.

„Ég er enn þá svolítið þreyttur eftir síðasta hlaup,“ viðurkennir Nirbhasa en heldur þó ótrauður áfram hlaupinu í kringum Tjörnina. Hann stefnir á að klára afmælishlaupið fyrir klukkan sjö í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert