Sjúkraliðar skoða tilboð borgarinnar

Sjúkraliðafélag Íslands og Reykjavíkurborg eru í viðræðum. Sjúkraliðar skoða tilboð …
Sjúkraliðafélag Íslands og Reykjavíkurborg eru í viðræðum. Sjúkraliðar skoða tilboð sem borgin bauð þeim á fundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að tala saman og fengum tilboð frá Reykjavíkurborg sem er í samræmi við aðra samninga sem borgin segist hafa gert við aðra. Við getum ekki borið það saman strax en ætlum að skoða gögnin,“ segir Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, um fund félagsins og Reykjavíkurborgar sem lauk um klukkan þrjú í dag. 

Næsti fundur verður á mánudaginn. Fram að því skoðar félagið tilboðið og rýnir í hverju það eigi eftir að skila félagsmönnum. Ekki var boðað verkfall hjá sjúkraliðum í Reykjavíkurborg. „Við væntum þess að við mætum þá frekari skilningi hjá borginni í viðræðunum fyrst við gerðum það ekki,“ segir Sandra.

Telur félagið geta unnið með það sem er á borðinu 

„Ég er hóflega bjartsýn. Ef ég lít raunsætt á þetta held ég að við getum unnið með þetta sem er á borðinu,“ segir Sandra spurð hvernig henni lítist á tilboðið. 

Sjúkraliðafélagið er með lausan samning við Samband fyrirtækja í velferðarþjónustu sem sér um rekstur hjúkrunarheimila. Venjan hefur verið að þeir samningar hafi tekið mið af kjarasamningum sem gerðir eru við ríkið.    

„Við komumst ekki lengra. Ég mat það svo að ekki var hægt að fara lengra,“ segir Sandra spurð út í samning félagsins við ríkið sem skrifað var undir á áttunda tímanum síðastliðinn mánudagsmorgun. 

Axla ábyrgð í alvarlegri stöðu

Núna er unnið að því að vinna kynningarefni á samningnum. Það er gert í samvinnu við BSRB. Í ljósi aðstæðna, útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19-sjúkdómnum, þarf að taka mið af þeim tilmælum landlæknis að heilbrigðisstarfsmenn reyni að sneiða hjá fjölmennum samkomum. Þar af leiðandi verður kjarasamningurinn mögulega kynntur með öðru sniði en venja er. Tæknin verður eflaust meira notuð en sem fyrr segir á þetta eftir að taka á sig frekari mynd.  

„Það er mikilvægt að Sjúkraliðafélagið sýni samfélagslega ábyrgð. Við ætlum að gera það. Staðan er alvarleg,“ ítrekar Sandra. 

Næst þegar félagið fundar hjá ríkissáttasemjara verða færri úr samninganefndunum á hverjum fundi vegna hættu á útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta er samkvæmt nýjum reglum frá ríkissáttasemjara, að sögn Söndru. 

„Á næsta fundi verða 2-3 úr hverri nefnd. Þetta setur hlutina í annað samhengi. Alvarleikinn er alls staðar og þetta er veruleikinn sem við vinnum í,“ segir Sandra.  

Sandra B. Franks, stjórnarmaður í BSRB og formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Sandra B. Franks, stjórnarmaður í BSRB og formaður Sjúkraliðafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert