Upplýsingasíða um kórónuveiruna opnuð

Upplýsingasíðan er komin í loftið.
Upplýsingasíðan er komin í loftið. Kort/dAton

Nýsköpunar- og gagnagreiningarfyrirtækið dAton hefur opnað upplýsingasíðu um útbreiðslu og stöðu kórónuveirunnar á heimsvísu.

Hægt er að sjá stöðuna í einstaka löndum út frá mismunandi forsendum. Á síðunni er einnig hægt að fylgjast með innlendum fréttum tengdum veirunni, sem veldur sjúkdómnum COVID-19, og hversu margar þær eru yfir ákveðið tímabil, að því er kemur fram í tilkynningu.

Upplýsingar á síðunni byggjast á gögnum frá John Hopkins-háskólanum í Bandaríkjunum og uppfærast þær sjálfkrafa. Þá er vefurinn einnig gagnvirkur þannig að hægt er að velja sérstakar breytur til að flokka upplýsingar eftir. Til viðbótar er hægt að skoða hversu mikla dreifingu þessar fréttir fá á samfélagsmiðlum eina klukkustund eftir birtingu. Frekari gögnum verður bætt við eftir því sem við á.

„Markmiðið með upplýsingasíðunni er að gera mikið magn gagna aðgengilegt á einum stað. Mikilvægur þáttur í að ná utan um faraldur sem þennan er að áreiðanlegar upplýsingar liggi fyrir um hann og fólk skilji þessar upplýsingar. Þessi vefur sem vinnur með lifandi gögn er leið til að setja upplýsingar fram með skipulögðum hætti,“ segir Huginn Freyr Þorsteinsson, stjórnarformaður dAton, í tilkynningunni.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert